„Mjög mikilvægt að detta úr formi“

Sigurvegari í maraþoni karla í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2017 er Arnar …
Sigurvegari í maraþoni karla í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2017 er Arnar Pétursson. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er það hraðasta sem Íslendingur hefur hlaupið á íslenskri grundu. Það er nefnilega ekkert grín að hlaupa á Íslandi í þessum vindi og brekkum,“ segir Arnar Pétursson sigurvegari í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram fór um helgina.

Arnar kom í mark á tímanum 2:28:17 sem er besti tími Íslendings í maraþoninu sem og nýtt persónulegt met Arnars en með sigrinum nældi hann sér jafnframt í Íslandsmeistaratitilinn í maraþoni. Arnar tryggði sér nokkuð öruggan sigur en í öðru sæti hafnaði Svíinn Patrik Eklund sem kom í mark rétt rúmum 11 mínútum á eftir Arnari. Hann segir lykilinn að velgengninni meðal annars felast í því að detta af og til úr formi til að geta unnið sig aftur upp.

„Íslenskt logn“ og sól í augun

Spurður um aðstæður í hlaupinu á laugardaginn segir Arnar þær hafa verið með besta móti miðað við það sem gengur og gerist á Íslandi.

„Eins og maður kallar það í hlaupum þá var íslenskt logn sem eru svona 2-3 metrar á sekúndu, það einhvern veginn dettur aldrei alveg niður hérna. Síðan var hitastigið mjög fínt en það er betra að hafa ekki sólina skínandi í andlitið á þér í tvo og hálfan tíma en það gerði þetta bara skemmtilegra, meiri stemning og fleira fólk sem kom út að hvetja þannig að þetta var bara eiginlega eins gott og það verður á Íslandi,“ segir Arnar.

Veður var með besta móti í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn.
Veður var með besta móti í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Arnar hefur átt góðu gengi fagna í Reykjavíkurmaraþoninu en síðan hann byrjaði að keppa hefur hann nælt sér í nokkra Íslandsmeistaratitla og árið 2012 sigraði hann einnig í heildarkeppninni á tímanum 2:41:06. 

„Síðan þá hefur þetta gengið misvel seinustu ár. Ég hef þurft að hætta tvisvar og í fyrra var ég í öðru sæti þannig að það var alveg extra gaman að vinna í ár og bæta sig um eitt sæti og tíminn var algjör bónus,“ segir Arnar.

Á verðlaunapall í fyrsta maraþoninu

Arnar hljóp sitt fyrsta maraþon um leið og hann hafði aldur til 18 ára gamall og hafnaði þá í öðru sæti þrátt fyrir að hafa aldrei æft hlaup sérstaklega. Efasemdaraddir voru þá uppi um hvort hann hefði raunverulega hlaupið rétta leið en síðan þá hefur Arnar lent í alls konar uppákomum í keppnum.

„Ég hef verið ansi óheppinn og lent í ansi skrítnum aðstæðum vægast sagt. Þetta reyndar byrjaði bara í rauninni í fyrsta hlaupinu sem ég hljóp þegar ég var 18 ára,“ segir Arnar og hlær.

„Ég ákvað bara að hlaupa þetta til að geta tékkað það af listanum, að geta sagt að maður hefði hlaupið maraþon, bara að hafa gaman af þessu, æfði ekki neitt fyrir þetta og var bara í körfubolta og það endaði með því að ég var annar af Íslendingunum og bætti eitthvert met í undir 20 ára og ég vissi ekkert hvað ég var að gera í rauninni,“ bætir hann við.

Arnar Pétursson er Íslandsmeistari í maraþoni.
Arnar Pétursson er Íslandsmeistari í maraþoni. mbl.is/Árni Sæberg

Eftir það skapaðist umræða um að Arnar hefði hugsanlega ekki hlaupið réttu leiðina þar sem tímamælingin hafði klikkað á einum eða tveimur stöðum í hlaupinu en annar hlaupari gar vottað fyrir að Arnar hefði hlaupið rétta leið.

Ýmsar uppákomur allt frá fyrsta hlaupi

Þá var Arnar kærður fyrir svindl í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2014 en var sýknaður eftir að yfirdómnefnd komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að sanna að um svindl væri að ræða. Loks var sigurinn dæmdur af Arnari í víðavangshlaupi ÍR árið 2015 sem rekja má til mistaka við brautarvörslu að sögn Arnars.

„Þannig að þetta byrjaði eiginlega alveg í fyrsta hlaupi. Þetta er allt búið að vera mjög óvart og óviljandi og ég einhvern veginn lendi í þessu,“ segir Arnar. Aðspurður segir hann þó engar athugasemdir hafa verið gerðar í ár og sigur hans í Reykjavíkurmaraþoninu 2017 því ótvíræður.

Þarf að detta úr formi til að byggja sig aftur upp

Næsta hlaup á dagskrá hjá Arnari er að öllum líkindum Hleðsluhlaupið sem fer fram á fimmtudaginn og einhver fleiri hlaup hérlendis í sumar. Á næsta ári stefnir Arnar svo á að taka þátt í fleiri og stærri mótum erlendis.

„Eftir næstu helgi þá kannski tekur maður svona 10 daga hvíld þar sem maður hleypur ekki neitt. Það er mjög mikilvægt að detta einmitt úr formi til þess að geta byggt sig aftur upp í form. Það er nefnilega tækni sem menn eru oft mjög hræddir við að gera, að leyfa líkamanum að detta alveg úr formi,“ segir Arnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert