Ólíkur framburður Thomasar og Nikolajs

Nikolaj Wilhelm Herluf Olsen, skipsfélagi Thomas­ar Møller Ol­sen sem ákærður er fyr­ir að hafa myrt Birnu Brjáns­dótt­ur, segist ekki kannast við lýsingar Thomasar á atburðum aðfaranætur laugardagsins 14. janúar þegar Birna var myrt. Nikolaj var fyrstur á vitnalista þeirra sem báru vitni í aðalmeðferð í máli Thomas­ar sem nú fer fram í Héraðsdómi Reykjaness.

Nikolaj var grunaður um aðild að láti Birnu og sat í gæsluvarðhaldi í tvær vikur, frá 18. janúar. 

Hér er hægt að fylgjast með beinni textalýsingu frá aðalmeðferðinni.

Eftir að Nikolaj hafði gert grein fyrir nafni sínu og fæðingardegi og hann áminntur um að fara rétt með staðreyndir og að draga ekkert undan var honum bent á að yrði hann spurður spurninga, sem gætu varðað hugsanlegt refsivert athæfi hans sjálfs, þyrfti hann ekki að svara. Að því búnu bað Kristinn Halldórsson héraðsdómari hann að gera grein fyrir ferðum sínum frá því hann yfirgaf Polar Nanoq að kvöldi föstudagsins 13. janúar. „Ég gekk einn um höfnina og sá Inuk (Kristiansen sem einnig var í áhöfn Polar Nanoq og mun bera vitni síðar í dag) og Thomas í bíl. Ég ætlaði að taka leigubíl í bæinn, þeir spurðu mig hvort þeir gætu skutlað mér og ég sagði já.“

Ég var svo fullur

Eftir að í miðborg Reykjavikur var komið sagðist Nikolaj hafa rölt um og síðan farið inn á English Pub þar sem hann fékk sér bjór. Hann spjallaði við Thomas á netinu og spurði hann hvort hann ætlaði ekki að koma. Eftir að hafa drukkið „í rólegheitum“ kom Thomas á staðinn, þeir settust saman að sumbli og þegar staðnum var lokað fóru þeir á American Bar.

„Ég kom aðeins seinna því ég var að tala í símann. Í rauninni mátti ég ekki fara inn fyrst, en Thomas kom út og náði í mig. Þetta er allt svolítið óljóst, ég man lítið,“ sagði Nikolaj.

Dómari spurði: Hvers vegna manstu lítið? „Ég var svo fullur.“

Nikolaj sagðist muna eftir að hafa yfirgefið American Bar og farið inn í bílinn sem Thomas var með. „Ég vildi fara heim í skipið, en Thomas vildi fara í bíltúr. Ég man ekki mikið,“ áréttaði Nikolaj.

Nikolaj Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.
Nikolaj Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sá að einhver var aftur í 

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari spurði nú Nikolaj hversu vel hann myndi atvik. „Ég man nánast ekki neitt,“ var svarið. „Þú talar um að stúlka hafi komið inn í bílinn á Laugavegi, geturðu útskýrt hvernig það atvikaðist,“ spurði Kolbrún. „Eftir því sem ég man, þá kom hún inn í aftursætið. En ég man ekki mikið þangað til ég var kominn niður í skip.“

„Geturðu lýst þessari stúlku eitthvað?“ spurði Kolbrún.

„Ég man ekkert nákvæmlega. Þegar ég fór út úr bílnum sá ég að einhver var aftur í,“ svaraði Nikolaj. Kolbrún spurði hann þá hvort hann hefði átt einhver samskipti við stúlkuna og svarið var nei. Hann sagðist ekki muna hvort bílinn hefði stoppað einhvers staðar á milli miðborgar Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

Nikolaj sagði að sér hefði fundist eins og einhver væri í aftursæti bílsins þegar þeir Thomas voru komnir að skipinu í Hafnarfjarðarhöfn. „Þetta er svolítið óljóst, en mér finnst eins og það hafi einhver verið aftur í. En ég var svo fullur,“ sagði Nikolaj og sagðist ekki muna hvort hann hefði rætt þetta við Thomas.

„Geturðu eitthvað sagt til um hvort stúlkan hafi verið Birna Brjánsdóttir?“ spurði Kolbrún. „Nei,“ svaraði Nikolaj.

Spurður hvort hann hefði ekið bifreiðinni á einhverjum tímapunkti þessa nótt, eins og Thomas hélt fram í vitnisburði sínum, sagðist hann ekki hafa gert það því hann væri ekki með ökuskírteini, hann hefði aldrei lært að aka bíl.

Saksóknari spurði þá hvort vera kynni að hann hefði ekið bílnum án þess að muna eftir því og svarið var nei. Þá spurði saksóknari hann út í framburð Thomasar um að Nikolaj hefði ekið með stúlkunni í bílnum frá golfskálanum í Garðabæ. „Ég efast um að ég hefði getað keyrt bílinn. Ég efast um að ég hafi talað við hana því ég sofnaði í bílnum. Ef ég hefði keyrt bílinn svona fullur hefði ég sennilega lent í slysi.“

Held ég hafi ekki snert hana

Nikolaj sagðist ekki reka minni til þess að hann hefði óskað eftir því að vera einn með stúlkunni í bílnum, eins og Thomas hélt fram. „Nei, ég man ekki eftir því. Ég efast um það. Ég var rosalega fullur, ég er ekki með ökuskírteini og ég er ekki vanur að reyna að keyra. “

Heldurðu að þetta hafi gerst? „Nei.“

Gerðirðu eitthvað við stúlkuna í bílnum? „Nei. Ég held að ég hafi ekki snert hana.“

Þú kannast þá ekki við þessa lýsingu Thomasar? „Nei.“

Kolbrún spurði Nikolaj næst um daginn eftir. Hann sagðist hafa vaknað um kl. 11. „Ég fór að herbergi Thomasar, en fór ekki inn í það. Ég man eftir að hafa spurt hann út í þessar konur.“

Kolbrún spurði Nikolaj út í hvers vegna hann hefði fyrst sagt að tvær konur hefðu verið í bílnum, en síðan hefði hann talað um að þar hefði verið ein kona. „Það rifjaðist upp fyrir mér í fangelsinu, það var „út af víni sem ég hélt að þær hefðu verið tvær“.

Páll Rúnar Kristjánsson, verjandi Thomasar, spurði Nikolaj hvenær honum hefði verið tilkynnt að hann væri ekki lengur með réttarstöðu sakbornings, heldur væri hann nú með stöðu vitnis. Nikolaj sagðist ekki muna það nákvæmlega. Því næst spurði Páll hann hvort hann hefði oft komið til Íslands? „Á hverju ári frá 2011,“ var svarið. Hefurðu lent í slagsmálum eða áflogum hér? spurði Páll. „Já, einu sinni.“ 

Spurt út í meiðsli Nikolajs

Ákæruvaldið var þvínæst beðið að kveikja á myndvarpa. Þar var sýnd mynd úr upptökukerfi leigubíls sem sýndi mann fara inn í rauðan Kio Rio-bíl við Bæjarins bestu og var tekin rúmlega fimm aðfaranótt laugardags. Spurður hvort hann væri maðurinn á myndinni sagði Nikolaj að hann sæi það ekki á myndinni. 

Páll spyr Nikolaj hvort Thomas hafi talað við Birnu áður en hún kom upp í bílinn á Laugaveginum, hann minnist þess ekki. Páll bendir á að Nikolaj hafi áður sagt við yfirheyrslur hjá lögreglu að Thomas hafi talað við Birnu áður en hún kom inn í bílinn, en hann getur ekki gefið skýringar á breyttum framburði.

Spurður hvort hann hafi verið í bílnum allan tímann segist Nikolaj halda það. Hann segir Thomas hafa keyrt bílinn allan tímann og man ekki hvort hann fór einhvern tíma út úr honum. Hann man heldur ekki hvort hann fór sjálfur út úr bílnum.

Sýnd er önnur mynd af bílnum, þar sem hann var við golfskálann í Garðabæ, og Nikolaj er spurður hvort hann sitji í framsæti bílsins. Páll segir að hann sjáist ekki, en Nikolaj segist engu að síður hafa verið í bílnum. Þá er sýnd mynd af bílnum á hlið og Páll bendir aftur á að Nikolaj sjáist ekki inni í bílnum.

Hann er spurður hvort hann kunni skýringar á því: „Sennilega var ég sofandi þarna með hausinn hangandi við hurðina,“ svarar Nikolaj.

Svo er sýnt myndband af bílnum koma að Polar Nanoq við Hafnarfjarðarhöfn. „Maður veitir því athygli að þegar þú ferð úr út bílnum þá sést ljós og aftur þegar Thomas fer inn í bílinn. Kanntu skýringar á því af hverju þetta sama ljós sést á hinni myndinni,“ spyr Páll og vísar þar til myndarinnar sem áður var birt og sýndi bílinn í kyrrstöðu við golfskálann. Hann segist ekki kunna á því skýringar.

Nikolaj Olsen gengur inn í dómsal í Héraðsdómi Reykjaness í …
Nikolaj Olsen gengur inn í dómsal í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá bendir verjandi á að ökumaður bílsins, sem sést á myndinni, virðist töluvert lágvaxnari en Thomas, sem er um 190 sentimetrar á hæð. Dómari stoppar Pál af og spyr hvort þetta sé ekki komið út í sönnunarfærslur. Vitnið hafi nú þegar gefið skýrslu.

Páll spyr út í læknaskýrslu þar sem fram kemur að Nikolaj hafi verið með marbletti á vinstri hendi. Páll vill fá að vita af hverju hann var með marbletti þar. Hann segir marblettina hafa komið við vinnu, en hann hafi ekki verið með áverkann umrætt kvöld.

Páll vísar aftur til myndbandsins sem sýnir að Nikolaj notar ekki vinstri höndina þegar hann fer út úr bílnum. Þá virðist hann bara nota hægri höndina þegar hann gengur upp landgang skipsins: „Varstu eitthvað slappur í vinstri hendinni?“ spyr Páll. Nikolaj svarar því neitandi.

Var sagt að segja eitthvað

Nikolaj segist hafa sofnað fljótlega eftir að hann kom um borð í skipið. Hann hafi fyrst hringt nokkur símtöl. Páll spyr hvort hann hafi verið órólegur þegar hann kom um borð í skipið, en hann neitar því.

Páll snýr sér því næst að spurningum um yfirheyrslur lögreglu. „Nú sast þú í einangrun á Litla-Hrauni og varst oft yfirheyrður, fannst þér löreglan þrýsta á þig að segja eitthvað?" spyr hann.

„Þegar ég var yfirheyrður fyrst var öskrað á mig og mér sagt að segja eitthvað, en ekki eftir það,“ svarar Nikolaj.

„Varstu einhvern tíma spurður út í áverkana á vinstri hendinni?“ spyr Páll jafnframt.

„Ég man ekki eftir því, ég man ekki einu sinni sjálfur eftir að hafa verið með áverka.“

Páll vísar til ákveðinna upplýsinga sem koma fram í lögregluskýrslum þar sem segir að Nikolaj hafi verið handtekinn því talið var að hann hafi vitað hvað stóð til í þessari ferð þeirra í bæinn umrætt kvöld.

„Ég man ekki mikið, en ég er ekki að leyna neinu. Ég var alltof fullur til að muna þetta, “ svarar Nikolaj.

„Varstu í yfirheyrslum að reyna að þóknast spyrjandanum. Voru þetta falskar minningar?“ spyr Páll. „Ég veit það ekki en ég segi bara satt,“ svarar Nikolaj.

Páll les upp úr lögregluskýrslu texta þar sem fram kemur að verjandi Nikolajs hafi viðrað áhyggjur af því að hann væri að að þóknast spyrjandanum, lögreglunni.

 „Þegar ég var fullur og fór úr fangelsinu og lögreglan reyndi að fá mig til að muna þá fór heilinn af stað,“ segir Nikolaj.

Því næst tekur ákæruvaldið við og spyr nokkurra spurninga. Kolbrún spyr Nikolaj meðal annars út í skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu þegar hann hafði stöðu sakbornings. Þar hafi komið fram að hann hafi spurt Thomas hvað hann ætlaði að „gera við þessar stelpur“. Þá hafi Thomas sagst ætla að sjá um þær, hann ætlaði að aka þeim.

Hér er hægt að fylgjast með beinni textalýsingu frá aðalmeðferðinni.

Thomas Møller Olsen er ákærður í málinu. Framburður hans breyttist …
Thomas Møller Olsen er ákærður í málinu. Framburður hans breyttist talsvert í morgun frá skýrslutöku hjá lögreglu og passaði ekki við framburð Nikolaj. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert