MAST stöðvar dreifingu mjólkur frá Viðvík

Kýr á beit í haga. Myndin tengist fréttinni ekki með …
Kýr á beit í haga. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. mbl.is/Styrmir Kári

Matvælastofnun hefur stöðvað dreifingu mjólkur frá bænum Viðvík í Skagafirði. Í tilkynningu frá MAST segir að ástæða dreifingarbannsins, sem er tímabundið, sé sú að eftirlitsmanni Matvælastofnunar hafi verið meinaður aðgangur að eftirlitsstað.

Stofnunin geti því ekki sannreynt að framleiðsla mjólkur frá Viðvík uppfylli ákvæði laga um hollustuhætti í matvælaframleiðslu. Á meðan slíkt ástand vari geti MAST ekki heimilað dreifingu matvæla frá bænum.

Matvælalög kveði á um að matvælafyrirtækjum sé skylt að veita óhindraðan aðgang til eftirlits á þeim stöðum þar sem framleiðsla eða dreifing matvæla á sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert