Thomas sagðist hafa kysst konuna

Inuk Kristiansen, vitni í sakamáli á hendur Thomas Möller Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa banað Birnu Brjánsdóttur í janúar síðastliðnum, segist hafa fundið torkennilega lykt í Kia Rio-bifreið sem Thomas og hann hafi tekið á leigu. Hann fann lyktina þegar hann kom inn í bílinn laugardaginn 14. janúar eftir að að Thomas hafði þrifið hann hátt og lágt.

Inuk, sem var í áhöfn togarans Polar Nanoq ásamt Thomasi, fór með honum að skila bílaleigubílnum á laugardag.

Aðalmeðferð fer fram í sakamáli á hendur Thomasi í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Inuk ber vitni í gegnum síma á grænlensku og grænlenskur túlkur túlkar orð hans.

Hér er hægt að fylgjast með beinni textalýsingu frá aðalmeðferðinni.

Kolbrún Benediktsdóttir varahérðassaksóknari, sem sækir málið, spyr Inuk hvort hann hafi verið með Thomasi þegar hann tók Kia Rio-bifreiðina á leigu föstudaginn 13. janúar og hann játar því.

Thomas var búinn að þvo úlpu Inuk og þurrka

Inuk rekur fyrir dómi í stuttu máli hvað þeir gerðu eftir að hafa tekið bílinn á leigu. Þeir hafi meðal annars farið í líkamsrækt, talað við Nikolaj í bænum og svo farið aftur í skipið og er það í samræmi við framburð Thomasar, sem gaf skýrslu fyrir dómi fyrr í dag.

Aðspurður hvort þeir hafi ætlað að hitta Nikolaj aftur í bænum segir hann Thomas hafa talað um það. Hann gæti hafa gert það, en Inuk fór ekki með.

Thom­as­ Möller Ol­sen í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Thom­as­ Möller Ol­sen í Héraðsdómi Reykjaness í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Inuk segist hafa skilið úlpuna sína eftir í bílnum en hann hafi fengið hana aftur daginn eftir. Thomas lét hann hafa úlpuna. „Ég fékk úlpuna aftur frá Thomasi. Það var búið að þvo hana og þurrka.“ Kolbrún spyr hvort Thomas hafi gefið skýringar á þvottinum. Inuk segir Thomas hafa sagt að konan hafi ælt á hana.

Kolbrún spyr hvaða kona það hafi verið: „Ég man ekki hvort það var ein eða tvær konur,“ svarar Inuk.

„Sagði Thomas þér að það hafi verið kona í bílnum sem hafi ælt á úlpuna,“ spyr Kolbrún og Inuk svarar játandi. Aðspurður hvort Thomas hafi sagt eitthvað meira um konuna segist Inuk ekki muna það.

„Sagðist Thomas hafa kysst þessa konu?“ spyr Kolbrún.

„Já, hann sagðist hafa kysst hana,“ svarar Inuk.

„Sagði hann hvar það hafði gerst.“

„Nei, hann sagði það ekki.“

Thomas sagði að konan hefði ælt í bílinn

Kolbrún spyr hvort hann hafi farið með Thomasi að skila bílnum að skila bílnum á bílaleiguna og svarar hann játandi.

Aðspurður hvort hann hafi séð eitthvað athugavert við bílinn segir hann: „Hann sagði mér áður en við fórum inn að það hafi verið æla í bílnum og þegar ég fór í bílinn þá fann ég lykt. Ég get ekki útskýrt hvernig lykt.“

Kolbrún spyr Inuk út í það hvort hann hafi rætt við lögreglumenn um borð í Polar Nanoq eftir að hann var handtekinn. Hvort hann muni eftir að hafa sagt við lögreglu að Thomas hafi sagt tvær stelpur hafa verið í bílnum. „Já, ég man eftir að hafa sagt það við lögreglu,“ svarar Inuk.

Páll Rúnar Kristjánsson, verjandi Thomasar, tekur þá við og spyr hvort Inuk hafi sagt við skýrslutökur hjá lögreglu að hann hafi fundið ælulykt í bílnum. Inuk minnir að hann hafi sagt það. „Ég á erfitt með a lýsa lyktinni en ég man að það var einhver lykt.“

Hann spyr jafnframt hvort úlpu hans hafi verið skilað með þeim hætti að hún hafi verið hengd á snaga fyrir framan káetu, en Inuk segist muna vel eftir að Thomas hafi afhent honum úlpuna.

Hér er hægt að fylgjast með beinni textalýsingu frá aðalmeðferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert