Ungir Íslendingar fá viðurkenningu

Frá verðlaunaafhendingu Framúrskarandi ungra Íslendinga í fyrra. 10 einstaklingar úr …
Frá verðlaunaafhendingu Framúrskarandi ungra Íslendinga í fyrra. 10 einstaklingar úr hópi hundrað tilnefninga fá viðurkenningu JCI á Íslandi í ár. Ljósmynd/Gunnar Þór Sigurjónsson

Um hundrað tilnefningar bárust dómnefnd Framúrskarandi ungra Íslendinga verðlaunanna sem árlega eru veitt af JCI samtökunum á Íslandi. Verðlaunin eru hugsuð sem hvatningarverðlaun fyrir ungt fólk sem er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið á einn eða annan hátt.     

„Það eru svo margir sem eru að vinna svo mikið og gefa svo mikið til samfélagsins en fá það ekki viðurkennt. Þessi verðlaun snúast um að gefa þessu fólki viðurkenningu,“ segir Elizes Low, verkefnastjóri og fráfarandi landsforseti JCI á Íslandi, í viðtali við mbl.is.

Verðlaunin verða veitt í 16. skipti í ár þegar 10 einstaklingar hljóta viðurkenningu á hinum ýmsu sviðum. „Öll hafa þau, með beinum eða óbeinum hætti, breytt einhverjum hugsunarhætti í íslensku samfélagi,“ segir Elizes.

Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík 28. ágúst klukkan 17.30. Forseti Íslands mun veita verðlaunin til þeirra Almars Blæs Sigurjónssonar fyrir störf á sviði menningar, Arons Einars Gunnarssonar fyrir einstaklingssigra og/eða afrek, Áslaugar Ýrar Hjartardóttur, einnig fyrir einstaklingssigra og/eða afrek, Evu Drafnar Hassel Guðmundsdóttur fyrir framlag hennar til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda, Margrétar Vilborgar Bjarnadóttur fyrir störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði, Martins Inga Sigurðssonar fyrir uppgötvanir á sviði læknisfræða, Söru Mansour fyrir framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda, Steinunnar Ásu Þorvaldsdóttur fyrir störf á sviði menningar, Þórunnar Ólafsdóttur fyrir störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála og Ævars Þórs Benediktssonar fyrir afrek á sviði menntamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert