Blóð úr Birnu um allan bílinn

Kia Rio-bifreiðin.
Kia Rio-bifreiðin.

Blóð úr Birnu Brjánsdóttur var að finna um alla Kia Rio-bifreiðina sem Thomas Møller Ol­sen og Ni­kolaj Wil­helm Her­luf Ol­sen höfðu á leigu aðfaranótt laugardagsins 14. janúar síðastliðins þegar Birna hvarf. Fundust blóðblettir meðal annars í aftursæti bílsins, í lofti, á hraðamæli, á sólskyggni og á hurð hans.

Þetta kom fram í máli Björgvins Sigurðssonar, sérfræðings hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem bar vitni við aðalmeðferð málsins í dag.

Björgvin kom að fyrstu skoðun á bifreiðinni, en eftir að hafa fundið bletti í afturhlera og í fölsum þegar afturhurðir voru opnaðar ákvað hann að stoppa þar sem hann sagði að þá hefði verið ljóst að frekari rannsóknar var þörf.

Blóðsýni sem fundust í bílnum voru send til Svíþjóðar í DNA-rannsókn og voru þau öll samkennd Birnu. Björgvin segir að sýni í bílnum hafi ekki gefið svörun sem sæði.

„Hann lýstist upp bíllinn, aftur í“

Ragnar Jónsson, rannsóknarlögreglumaður hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ber einnig vitni og segir hann það hafa slegið sig hversu mikið magn af blóði var sýnilegt með berum augum í bílnum.

Síðar hafi verið notaður Lúminól-vökvi. „Hann lýstist upp bíllinn, aftur í,“ segir Ragnar.

Ragnar segir að ljóst sé að Birna hafi fengið tvö aðskilin högg og hafi blætt við það, en ekki sé hægt að segja til um hvort höggin hafi verið fleiri og þar njóti sakborningur vafans.

Blóðferlar hafi komið frá aftursætinu og farið fram í bílinn. Vegna þess hve mikið hafði verið nuddað við þrif var þó erfitt að fara í eiginlega blóðferlagreiningu. Stakir blettir fundust þó á mælaborði, á sólskyggni og í lofti bílsins hægra megin, sem haldið höfðu línulegri lögun sinni. Því hafi verið hægt að segja til um að blóðið hafi komið úr aftursæti og fram.

Hann segir að þrátt fyrir að reynt hafi verið að þrífa bílinn hafi það ekki tekist vel. Undir hægra aftursæti hafi verið blóðpollur. Sé það til vitnis um að á einhverjum tímapunkti hafi blóð farið frá vitum hennar, blóðið hafi verið það mikið.

Ragnar segist hafa verið viðstaddur krufninguna og þar hafi verið ljóst að hún var með sprungna vör og brotið nef. Um blóðrík svæði sé að ræða sem komi heim og saman við blóðpollinn í bílnum.

Ragnar segir ljóst að blóð hafi verið verið víða í bílnum. „Það má ætla að við átök, þegar verið er að berja manneskju, að hún sé ekki kyrr. Þannig að við getum fengið mikla hreyfingu.“

Kolbrún spyr Ragnar hvort það sé möguleiki á því að þrír hafi verið í bílnum og hann segir það mjög ólíklegt að einhver hafi setið í framsæti bílsins. „Ef einhver fyrirstaða er þá myndast ákveðin eyða þar sem er blóðlaust svæði. En í bílnum var ekkert blóðlaust svæði þar sem einhver hefði getað verið.“

Aðspurður segir hann engin merki hafa verið um ælu í bílnum, en Thomas sagði Birnu hafa ælt í bílinn og það útskýri þrif hans á bílnum.

Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness.
Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgvin fékk Dr. Martens-skó Birnu, sem fundust við Hafnarfjarðarhöfn við leit að henni, til skoðunar en hann segir tvo rauðleiða bletti hafa verið á skónum. Skornar hafi verið úr þeim reimar sem sendar hafi verið í rannsókn, til að athuga hvort á þeim væri lífssýni.

Afskurðirnir hafi þá verið sendir til Svíþjóðar og reimarnar á vinstri skónum hafi borið á sér þekjufrumur bæði frá Thomasi og Birnu.

Þá spurði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari Björgvin út í fötin sem fundust í káetu Thomasar. Sagði hann bletti í þeim ekki hafa verið eftir blóð.

Þá fannst í þvottavél um borð í skipinu peysa og bolur, en fatnaðurinn var rakur þegar lögregla sótti hann til rannsóknar. Við fyrstu skoðun var ekkert sjáanlegt í fatnaðinum en við nánari rannsókn kom í ljós svörun við blóði í bolnum.

Úlpa Inuk, sem hann hafði skilið eftir í bílnum og áður kom fram að var þvegin og þurrkuð, var hreinleg og ekkert fannst við fyrstu skoðun á henni að sögn Björgvins. Lúminól-vökvi við frekari rannsókn hafi þó gefið blóðsvörun, sem bendi til að blóðleifar hafi verið í úlpunni.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í Héraðsdómi Reykjaness í dag. mbl.is/Eggert

Kolbrún nefndi þá úlpu sem talin er hafa verið í eigu Thomasar, sem fannst í káetu hans. Björgvin sagði að ofan við vinstri brjóstvasa á úlpunni hafi verið blettur sem gefið hafi jákvæða svörun við blóðpróf.

Við rannsókn í Svíþjóð hafi komið í ljós að blóðið hafi verið úr Birnu. Um hafi verið að ræða kámblett, og blóðið því klínst í úlpuna.

„Hvernig það fór í úlpuna, það get ég ekki sagt til um.“

Myndum var varpað á skjá, af úlpu Inuk, þar sem sjá má hvernig Lúminól-vökva hefur verið úðað á úlpuna sem lýsir upp hvar blóð hefur farið á hana.

Ann­ar dag­ur aðalmeðferðar í máli ákæru­valds­ins gegn Thom­asi, sem ákærður er fyr­ir að hafa myrt Birnu Brjáns­dótt­ur í janú­ar síðastliðnum, fer fram í Héraðsdómi Reykja­ness í dag.

Alls bera 37 manns vitni fyr­ir dómi í mál­inu, en tólf þeirra komu fyr­ir dóm í gær. Þar á meðal Ni­kolaj, sem sat í gæslu­v­arðhaldi í tvær vik­ur í janú­ar grunaður um aðkomu að morðinu. Hann var hins veg­ar úti­lokaður sem sak­born­ing­ur, meðal ann­ars vegna þess að ekki fund­ust líf­sýni henn­ar á föt­um hans. Thom­as gaf einnig skýrslu fyr­ir dómi í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert