Bretar semja fyrst við Ísland

AFP

Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að Ísland verði á meðal þeirra ríkja sem fyrst verði samið við um tvíhliða loftferðasamning sem taki gildi þegar Bretland yfirgefur Evrópusambandið. Hin ríkin sem samið verður við fyrst eru Sviss, Noregur, Bandaríkin og Kanada.

Samkomulag náðist á fundi sendiráðs Íslands í London með breskum embættismönnum um að sendinefnd frá breska samgönguráðuneytinu komi til Reykjavíkur á fund 12.-13. september til þess að fara yfir stöðu mála og undirbúa slíkan loftferðasamning samkvæmt fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Bæði Bretar og Íslendingar nálgast þetta viðfangsefni með þeim ásetningi að halda réttindum sem nú gilda óbreyttum en færa þau í tvíhliða búning. Standa vonir til þess að hægt verði að ganga frá samkomulagi eftir tvær samningalotur og helst fyrir áramót. Slíkt samkomulag yrði í formi Memorandum of Understanding sem gæti síðan tekið gildi við brottför Breta úr ESB í marslok 2019,“ segir enn fremur.

Þá er Anthony Philipson, skrifstofustjóri í ráðuneyti útgöngu úr Evrópusambandinu, væntanlegur til Reykjavíkur 6. september til skrafs og ráðagerða og fundur embættismanna um tvíhliða samskipti Íslands og Bretlands er ráðgerður 26. september. Samráðsfundir EFTA-ríkja verða enn fremur 2. október og 8. eða 10. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert