Breytt áform um hótel á Grensásvegi

Hótelið átti að rísa á gatnamótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar.
Hótelið átti að rísa á gatnamótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Teikning/Batteríið arkitektar

Kvikmyndaskóli Íslands verður áfram til húsa á Grensásvegi 1, að minnsta kosti næsta árið, eftir að áform um að rífa húsið í sumar vegna byggingar 300 herbergja hótels gengu ekki eftir.

Áætlað var að opna hótelið, sem átti að vera það stærsta á Íslandi í fermetrum talið, fyrir sumarið 2019. Heildarfjárfesting vegna verkefnisins nam 10 milljörðum króna.

Kvikmyndaskóli Íslands var byrjaður að leita sér að nýju húsnæði og hafði meðal annars litið til Fannborgar þar sem bæjarskrifstofur Kópavogs hafa verið til húsa.

Kvikmyndaskóli Íslands.
Kvikmyndaskóli Íslands. mbl.is/Þórður Arnar

Vilja vera áfram á Grensásvegi 

Að sögn Böðvars Bjarka Péturssonar hjá Kvikmyndaskóla Íslands, gildir nýi leigusamningurinn út þennan vetur. „Við erum hæstánægð með það. Það er mjög góð aðstaða hérna og við vonumst til að vera hérna áfram. Þetta er flott hverfi,“ segir hann.

Búið er að bæta við kennslustofum í skólann vegna deildar fyrir erlenda nemendur sem hefur verið í uppbyggingu. Tólf erlendir nemendur skráðu sig í skólann fyrir þetta skólaár.

Kvikmyndaskólinn var settur síðastliðinn fimmtudag og segist Böðvar Bjarki vera spenntur fyrir skólaárinu og eru miklar væntingar bundnar við settan rektor skólans, leikstjórann Friðrik Þór Friðriksson.

Böðvar Bjarki Pétursson.
Böðvar Bjarki Pétursson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vonast eftir sameiginlegu húsnæði listaskóla

Böðvar vonast til að skólinn verði áfram á Grensásvegi eftir að leigusamningurinn rennur út. Sjálfur vonast hann til að íslenskir listaháskólar geti starfað á lóðinni í framtíðinni í nýju sameiginlegu húsnæði.

Hann gat ekki gefið mbl.is upplýsingar um hvort hætt hefði verið við byggingu hótelsins eða hvort framkvæmdunum hefði eingöngu verið frestað.

Auk húsnæðis Kvikmyndaskóla Íslands er á reitnum rannsóknarhúsnæði sem verkfræðistofan Mannvit notaði og dælustöðvar Veitna. Rífa átti stóra húsið sem hýsir skólann en hin tvö húsin áttu að standa áfram.

Jón Þór Hjaltason, stjórnarformaður fasteignafélagsins G1 ehf.
Jón Þór Hjaltason, stjórnarformaður fasteignafélagsins G1 ehf. mbl.is/Ófeigur

Fasteignafélagið G1 ehf. er eigandi fasteigna og lóða á Grensásvegi 1. Eigendur þess eru félögin Miðjan og Þríhamrar. Guðmundur Ásgeirsson er framkvæmdastjóri félagsins en Jón Þór Hjaltason er stjórnarformaður. Jón Þór er jafnframt eigandi Miðjunnar ásamt eiginkonu sinni.

Hvorki náðist í Jón Þór né Guðmund við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert