Búðarþjófar og dópaðir bílstjórar

Þrír voru staðnir að þjófnaði í verslun í Smáralind síðdegis í gær en þeir voru á aldrinum 29 ára til 41 árs. Einn þeirra lét lögreglu fá fíkniefni sem hann var með á sér þegar lögregla hafði afskipti af þeim. Málið var afgreitt með skýrslu á staðnum.

Seint í gærkvöldi stöðvaði lögreglan bifreið á Miklubraut eftir að hún var mæld á of miklum hraða. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna auk þess sem hann hefur ítrekað verið stöðvaður fyrir akstur bifreiða þrátt fyrir að vera sviptur ökuréttindum.

Á áttunda tímanum í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í Skeifunni en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Um svipað leyti var annar ökumaður stöðvaður á Reykjanesbraut við Dalveg. Sá er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, að vera með fíkniefni á sér og aka ítrekað sviptur ökuréttindum.

Lögreglan stöðvaði bifreið í Írabakka í gærkvöldi en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Á fimmta tímanum í nótt var síðan bifreið stöðvuð á Höfðabakka. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert