Elsti félaginn í Lions á Íslandi

Ásta Sigurrós Sigmundsdóttir fagnar aldarafmæli í dag. Ásta er stoltust …
Ásta Sigurrós Sigmundsdóttir fagnar aldarafmæli í dag. Ásta er stoltust af afkomendum sínum 47. Hún var 99 ára og 9 mánaða þegar hún fékk pláss á hjúkrunarheimili mbl.is/RAX

Ásta Sigurrós Sigmundsdóttir, íbúi í Sunnuhlíð í Kópavogi, er 100 ára í dag. Hún er fædd á Ísafirði, dóttir Sigmundar Brandssonar og Júlíönu Óladóttur. Systkini Ástu voru Anna Kr. Björnsdóttir fóstursystir, fædd 1908, Þorbjörg, f. 1913, dáin sama ár, og Óli J. og Daníel G.E., fæddir 1916. Ásta var tveggja ára þegar faðir hennar lést og stóð ekkjan eftir með fjögur börn.

Ásta giftist Gunnari Þorsteini Þorsteinssyni, járn- og rennismið, sem lést árið 2008. Börn þeirra eru Júlíana Signý, f. 1947, sem verður sjötug á morgun, Óðinn, f. 1948, og Anna Margrét, f. 1950. Fyrir átti Gunnar dótturina Sigrúnu Björk, f. 1944. „Ég vildi klára barneignirnar á stuttum tíma,“ segir Ásta hlæjandi.“

Verslunarstörf og verslunarrekstur hafa verið starfsvettvangur Ástu. Hún átti m.a. verslunina Kópavog. „Það var ágætt að reka verslun. Ég var með gott fólk í kringum mig og þá er annað í lagi.“

Á hjúkrunarheimili 99 ára

Ásta og Gunnar voru félagar í Lionshreyfingunni. Ásta er stofnfélagi Lionsklúbbsins Ýrar og var gerð að heiðursfélaga klúbbsins haustið 2016. Ásta er elsti Lionsfélagi á Íslandi og jafngömul Lionshreyfingunni. Í mörg ár las Ásta Jólaguðspjallið á jólafundum Ýrar. „Ég hætti fyrir nokkrum árum, þá var ég of gömul,“ segir Ásta og hlær. Hún segir það í lagi að verða hundrað ára, það sé bara eins og annað sem kemur. „Ég er hress og hef verið heilsuhraust. Það þýðir ekkert annað en að taka lífinu eins og það er og vinna úr því á besta máta, “ segir Ásta, sem viðurkennir að hún sé jákvæð og glaðlynd að eðlisfari. Hún segir að margt hafi breyst. „Vonandi til batnaðar og fólk er opnara í dag,“ segir Ásta. Hún hefur ekki notað áfengi eða tóbak. „Ég hef aldrei haft tíma til þess.“ Þegar Ásta var 99 ára og 9 mánaða fékk hún pláss á hjúkrunarheimili.

„Ég er stolt af afkomendum okkar. Þeir eru 47 og stórfjölskyldan telur 70 manns. Segðu svo að maður skilji ekki svolítið eftir sig. Ég er þakklát fyrir lífið og heilsuna. Ég á Guði það að þakka. Ég trúi á hann og hann hjálpar mér þegar ég þarf á að halda,“ segir Ásta, sem fagnar aldarafmælinu á Nauthóli í dag í hópi ættingja og vina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert