Helgi setti háar fjárhæðir í Viðreisn

Helgi Magnússon.
Helgi Magnússon. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn hlaut tæpar 27 milljónir króna í styrki á stofnári sínu samkvæmt ársreikningi síðasta árs sem Ríkisendurskoðun hefur birt.

Framlög fyrirtækja námu um 16,4 milljónum króna og framlög einstaklinga um 10,3 milljónum króna.

Skuldir Viðreisnar á síðasta ári námu tæpum 11 milljónum króna. 

Helgi Magnússon atkvæðamikill

Helgi Magnússon, einn af stofnendum Viðreisnar, lagði til 800 þúsund krónur til flokksins úr eigin vasa. Félög í hans eigu, Varðberg ehf. og Hofgarðar ehf., lögðu jafnframt hvort um sig til 400 þúsund krónur.

Fyrirtækið N1, þar sem Helgi er stór hluthafi í gegnum Hofgarða ehf., styrkti Viðreisn jafnframt um 400 þúsund krónur, rétt eins og Bláa lónið þar sem Helgi er stjórnarformaður og einnig á meðal helstu eigenda í gegnum Hofgarða.  

Samtals námu styrkir Helga og félaga sem tengjast honum 2,4 milljónum króna.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, er fjámála- og efnahagsráðherra.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, er fjámála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert

Hinir einstaklingarnir sem styrktu Viðreisn um hæstu fjárhæðina, eða 800 þúsund krónur, voru Páll Kr. Pálsson, Thomas Möller, Þórður Magnússon og Páll Jónsson. Formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, styrkti flokkinn um 250 þúsund krónur.

Á meðal annarra fyrirtækja og félaga sem styrktu Viðreisn voru Ölgerðin Egill Skallagrímsson, Góa Lind ehf., Brim hf., HB Grandi, Reginn hf. og Icelandair Group.

200 þúsund frá félagi Vilhjálms

Félagið Miðeind ehf., sem er í eigu fjárfestisins Vilhjálms Þorsteinssonar, styrkti flokkinn um 200 þúsund krónur. Vilhjálmur er fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar sem hætti störfum eftir að hafa verið nefndur í Panamaskjölunum en hann átti aflandsfélag á Bresku-Jómfrúareyjunum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar. mbl.is/Frikki

Öll framlög skilgreind sem stofnframlög

Í áritun stjórnar kemur fram að þar sem þetta er fyrsta starfsár flokksins eru öll framlög skilgreind sem stofnframlög. Þar er kveðið á um að stofnframlög, þ.e. framlög frá lögráða einstaklingum og lögaðilum sem eru veitt í beinum tengslum við stofnun stjórnmálasamtaka, megi að hámarki nema sem svarar tvöföldu hámarksframlagi, eða 2x400 þúsund krónum, að því er segir í ársreikningnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert