Sérmerkja 8 km langan hjólastíg

Hjólreiðakappi á ferð um Heiðmörk.
Hjólreiðakappi á ferð um Heiðmörk. mbl.is/Rósa Braga

Skógræktarfélag Reykjavíkur, sem hefur umsjón með Heiðmörk, mun sérmerkja tæplega átta kílómetra langan hjólastíg um miðbik Heiðmerkur.

Þetta er gert til að bregðast við sívaxandi vinsældum svæðisins á meðal hjólreiðafólks. Fyrir er þetta stóra vatnsverndar- skógræktar- og útivistarsvæði fjölsótt af gangandi fólki og hestamönnum, auk bílvega sem liggja enn í gegnum það.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skógræktarfélaginu. Í gær greindi mbl.is frá því að hinn svokallaði gamli göngustígur yrði bannaður hjólreiðafólki. Um er að ræða fimm kílómetra leið meðfram Heiðmerkurvegi, af um 50 kílómetra stígum í Heiðmörkinni.

Fólk á gangi og hlaupum um Heiðmörk síðasta haust.
Fólk á gangi og hlaupum um Heiðmörk síðasta haust. mbl.is/Golli

„Skógræktarfélagið fagnar aukinni notkun svæðisins af hálfu hjólreiðafólks og fullur skilningur er innan félagsins á mikilvægi Heiðmerkur fyrir þennan hóp. Í takti við vaxandi fjölda hjólreiðafólks og auknar vinsældir íþróttarinnar hyggst Skógræktarfélag Reykjavíkur vinna að fjölgun hjólreiðastíga í Heiðmörk á næstu misserum,“ segir í tilkynningunni.

„Skilgreining og merkingar stíganna eru hluti af samningi sem Skógræktarfélag Reykjavíkur gerði við Orkuveitu Reykjavíkur fyrr í sumar. Í honum er m.a. fjallað um varðveislu vatnsbóla og vatnsverndarsvæða í Heiðmörk sem og bætta útivist og betri skilgreiningar á stígum og slóðum fyrir umferð um svæðið.

Heiðmörk á sér langa sögu sem útivistarsvæði en bæjarstjórn Reykjavíkur stofnaði formlega til hennar 1950 sem friðlands og skemmtigarðs fyrir Reykvíkinga. Samtímis fól borgin Skógræktarfélagi Reykjavíkur umsjón svæðisins og var þá þegar hafist handa við ræktun skóga til uppgræðslu og yndis fyrir bæjarbúa.

Á hverju ári kemur um hálf milljón gesta í Heiðmörk til að njóta náttúrunnar, hvort sem er á reiðhjóli, hestbaki eða gangandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert