Útilokar að Nikolaj sé gerandi

Nikolaj Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í gær.
Nikolaj Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst það útilokað,“ sagði Ragnar Jónsson, rannsóknarlögreglumaður hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, spurður um það hvort Nikolaj  Wil­helm Her­luf Ol­sen geti hafa verið gerandi í máli Birnu Brjánsdóttur.

Var það Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar Møller Ol­sen, sem varpaði fram spurningunni þegar Ragnar hafði skýrt frá því blóði sem fannst í rauðri Kia Rio-bifreið sem Thomas og Nikolaj höfðu á leigu aðfaranótt laugardagsins 14. janúar sl. þegar Birna hvarf.

Ekkert blóð á stýri og gírstöng

Páll Rúnar beindi sjónum að því að ekkert blóð hafi fundist á stýrinu, gírstönginni eða innanverðri bílstjórahurðinni í bifreiðinni. Hins vegar hafi fundist blóð á mælaborðinu farþegamegin í framsæti bílsins. Spurði hann hvort það gæti hafa verið af höndum geranda. „Það er ólíklegra,“ sagði Ragnar.

Benti hann á að við rannsóknir þar sem fólk með blóðugar hendur hefur stutt sig við eitthvað hafi yfirleitt sést skýrt handafar, en í Kia Rio-bifreiðinni hafi hins vegar verið rák á mælaborðinu. Slíkt geti til dæmis komið af tusku sem hugsanlega hafi verið notuð til að þrífa bílinn.

Verjandinn beindi athygli að Nikolaj

Páll Rúnar gekk enn harðar að Ragnari, og virtist beina athyglinni að Nikolaj. Er það í takt við skýrslu Thomasar fyrir dómi í gær þar sem hann gjörbreytti framburði sínum frá fyrri skýrslutökum lögreglu og virtist fella sök á Nikolaj. Sagði hann félaga sinn, sem var dauðadrukkinn umrædda nótt, hafa viljað eiga „prívat“ tíma með konunni. Sagði hann Nikolaj hafa keyrt í burtu með konuna og síðar hafi hann komið aftur einn. Ástæður breytts framburðar sagði hann vera að hann hafi verið stressaður og lögreglan hafi verið vond við hann.

Páll Rúnar bar undir Ragnar samskipti frá Leifi Halldórssyni þar sem hann er spurður hvort hægt sé að útiloka Nikolaj Olsen sem sakborning. Spurði hann jafnframt hvort þetta væri venjulegt í rannsóknum sem þessari. Sagði Ragnar að rannsakað sé til sektar eða sýknu og það hafi verið gert öll hans 27 ár í lögreglunni.

Spurður um það hvort hann hafi fengið spurningar um það hvort hægt væri að útiloka Thomas sem sakborning svaraði hann neitandi.

Páll Rúnar verjandi Thomasar með greipar spenntar í dómsalnum í …
Páll Rúnar verjandi Thomasar með greipar spenntar í dómsalnum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vantaði eitthvað af fötum

Páll Rúnar gerði blóð sem fannst á fatnaði einnig að umræðuefni, eftir að Ragnar hafði farið yfir þau sýni sem fundust í bílnum og á fatnaði sakbornings. Fannst meðal annars blóð á fatnaði sem var í þvottavél í togaranum Polar Nanoq og á úlpu sem skipverjinn Inoq hafði skilið eftir í bílnum. „En ertu að segja mér að það hafi ekkert blóð fundist á fötunum sem sakborningur klæddist?“ spurði Páll Rúnar.

Ragnar vildi fá nánari útskýringu á spurningunni og því hvort hann ætti við að ekkert hafi fundist á þeim fötum sem Thomas var handtekinn í. Sagðist Páll Rúnar þá eiga við föt í hans eigu sem hann hefði klæðst aðfaranótt laugardags. „Það vantar eitthvað af fötum sem hann hefur sést í á eftirlitsmyndavélum svo ég get ekki sagt til um það, þar sem það vantar eitthvað,“ sagði Ragnar þá.

Ljóst er af vitnisburði Thomasar og spurningum Páls að við vörn Thomasar beina þeir báðir sjónum sínum að Nikolaj umrædda nótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert