Virðist vera að fálma í myrkri

Thomas Møller Olsen er ákærður fyrir að hafa banað Birnu …
Thomas Møller Olsen er ákærður fyrir að hafa banað Birnu Brjánsdóttur 14. janúar sl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hann hefur komið með nýjar útgáfur eftir því sem málinu hefur undið fram. Þá verður að skoða önnur gögn í málinu; rannsóknargögn og framburði annarra. Hann sendir frá sér þau skilaboð að vitnisburður hans sé algerlega haldlaus og ekkert mark sé á honum takandi.“

Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, um framburð Thomasar Møllers Olsens og hvernig hann hefur breytt honum.

„Mér virðist hann vera að fálma í myrkri. Hann er að reyna að krafla sig upp úr þessu, en virðist ekki geta það,“ bætir Helgi við.

Hann segir síður en svo sjaldgæft að sakborningar komi með nokkrar útgáfur af því sem á að hafa gerst. Stundum séu á því trúverðugar skýringar, en svo sé ekki í þessu tilviki. „Það sem hann sagði við aðalmeðferðina virtist miða að því að fella félaga hans, mann sem var dauðadrukkinn,“ segir Helgi og á þar við fullyrðingar Thomasar um hegðun Nikolajs Wilhelms Herlufs Olsen, félaga síns, um nóttina.

Engin játning, en sterk gögn

Í upphafi aðalmeðferðarinnar í gær var Thomas spurður um hvort sú afstaða hans, að neita sök, hefði breyst. „Ég neita enn,“ þýddi grænlenski túlkurinn svar Thomasar.

Helgi segir að í samtölum sínum við grænlenska afbrotafræðinga hafi hann orðið þess áskynja að það sé nokkuð óvenjulegt meðal Grænlendinga að játa ekki sök. „Tölur sýna að þegar um alvarleg ofbeldisbrot eða manndráp er að ræða er játning yfirleitt ekki vandamálið á Grænlandi. En hann gæti verið í fullkominni afneitun.“

Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Spurður hvort það gæti verið úrslitaatriði í niðurstöðu málsins, að játning liggi ekki fyrir, segist Helgi ekki telja að svo sé. „Vissulega er engin játning, en fyrir liggja gögn sem benda til yfirgnæfandi sektar,“ segir Helgi og nefnir þar óyggjandi niðurstöður blóð- og lífsýna.

Efast um harðræði lögreglu

Bæði Thomas og Nikolaj sögðu við aðalmeðferðina í gær að lögregla hefði pressað á þá að játa á sig sök og komið illa fram við þá. Helgi segir líklegt að þessar ásakanir verði skoðaðar innan lögreglunnar, en segist ekki hafa orðið var við annað en að málið hafi verið unnið af einstakri fagmennsku af hálfu lögreglu. „Satt best að segja held ég að fólk eigi erfitt með að trúa að þetta hafi gerst í ljósi þess hversu ótrúverðugur vitnisburðurinn hefur verið. Mér þætti ekki ólíklegt að þarna væri verið að leita í örvæntingu eftir einhverju sem hugsanlega væri hægt að nota,“ segir Helgi.

Málið má ekki vera óuppgert

Að mati Helga er afar mikilvægt að málið verði til lykta leitt og að dregið verði fram með óyggjandi hætti hvernig lát Birnu bar að. Málið megi ekki verða að óleystu morðmáli sem muni liggja á þjóðinni næstu áratugina.

„Þjóðin tók þátt í þessu allt frá því að Birnu var fyrst saknað og við viljum öll klára málið. Við leituðum saman að henni, við höfðum öll áhyggjur. Hún var systir okkar, dóttir okkar og frænka sem var í grandaleysi á leið heim til sín á gangi í öruggustu borg Evrópu og hvarf sjónum okkar nánast í beinni útsendingu úr öryggismyndavélum. Þetta má ekki vera óuppgert en reyndar er fátt sem bendir til þess að eitthvað slíkt sé í uppsiglingu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert