17 ára játaði hnífstunguárás við Metro

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að sautján ára gamall piltur, sem grunaður er um tilraun til manndráps, sæti vistun á viðeigandi stofnun til fimmtudagsins 14. september næstkomandi. 

Pilturinn var handtekinn 3. apríl sl. ásamt félaga sínum, eftir að hafa stungið mann í bakið með hnífi fyrir utan veitingastaðinn Metro við Smáralind. Viðurkenndi hann í skýrslutöku að hafa framið verknaðinn og vísaði lögreglu á staðinn þar sem hann losaði sig við hnífinn. Einnig hafi eftirlitsmyndavélar staðarins sýnt ágætlega atvik og framburður vitna hafi stutt þær.

Eins og greint var frá á mbl.is eftir árásina í apríl voru engin tengsl milli árásarmannsins og fórnarlambsins og virtist árásin hafa verið tilefnislaus.

Þann 22. júní sl. var pilturinn ákærður fyrir tilraun til manndráps, en maðurinn hlaut lífshættulega blæðingu í brjósthol og kviðarhol, djúpan skurð á vinstra nýra og minni háttar loftbrjóst. Við þingfestingu neitaði pilturinn sök, en aðalmeðferð málsins fer fram í september.

Pilturinn hefur sætt gæsluvarðhaldi og vistun á viðeigandi stofnun frá 4. apríl sl. Í úrskurðinum kemur fram að hann sé undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varði allt að ævilöngu fangelsi en hann hafi eins og áður segir játað að hafa stungið brotaþola. „Með hliðsjón af því og með tilliti til almannahagsmuna sé það mat ákæruvaldsins að nauðsynlegt sé að tryggja að ákærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum.“

Með vísan til aldurs piltsins, sem sé aðeins sautján ára, telji ákæruvaldið að forsendur séu til þess að í stað gæsluvarðahalds verði honum gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun. Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu að piltinum yrði gert að sæta slíkri vistun allt til föstudagsins 15. september. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn í dag með vísan til forsendna hans, en þótti þó rétt að vistun piltsins stæði ekki lengur en til 14. september.

Ekki má úrskurða sakborninga undir 18 ára í gæsluvarðhald nema telja megi víst að önnur úrræði geti ekki komið í stað þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert