Hvað á að hafa í huga við hamfarir?

John Richardson talar um hvernig hægt er að búa fólk, …
John Richardson talar um hvernig hægt er að búa fólk, bæði andlega og líkamlega, undir áhrif og afleiðingar náttúruhamfara á ráðstefnu um náttúruhamfarir og viðnámsþrótt samfélaga í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingar búa við stórfelldar hættur, eins og jarðskjálfta, snjóflóð og eldgos, sem fólk þarf að takast á við daglega en þó að það sé hægt að spá fyrir um að náttúruhamfarir getur verið erfitt að sjá fyrir afleiðingar þeirra. 

Þetta segir John Richardson, ráðgjafi um viðbrögð og undirbúning vegna náttúruhamfara hjá Rauða krossinum í Ástralíu, sem heldur erindi á ráðstefnu um náttúruhamfarir og viðnámsþrótt samfélaga í Hörpu sem hefst í dag og stendur til föstudags.

Viðnámsþróttur samfélaga við náttúruhamförum

Heiti fyrirlestrar hans, „Meira en þrír lítrar af vatni“, vísar í hvað fólk þarf að hafa í huga ef til hamfara kemur og fjallar um hvernig hægt er að búa fólk, bæði andlega og líkamlega, undir áhrif og afleiðingar náttúruhamfara.

„Enginn vill deyja vegna náttúruhamfara en við vitum af reynslu, sérstaklega hér á Íslandi, að áhrif hamfara geta varað í langan tíma og geta haft áhrif á fólk árum saman,“ segir Richardson í viðtali við mbl.is.

„Það sem við erum að reyna að gera, og það sem ég er að tala um, er hvernig við getum reynt að draga úr langtímaáhrifunum og hvort við getum gert það með því að vera undirbúin undir náttúruhamfarir auk þess hvað það er sem fólk getur gert til þess að undirbúa sig og til þess að minnka afleiðingarnar.“

Hátt hlutfall sjálfboðaliða björgunarsveitanna

Meðan á dvöl hans hér á landi stendur hefur Richardson heimsótt fjölda aðila sem koma að almannavörnum með einum eða öðrum hætti. Hann segir að fjöldi sjálfboðaliða björgunarsveitanna og Rauða krossins hér á landi hafi komið honum verulega á óvart. „Þeir eru um ein og hálf prósenta allra íbúa landsins en við myndum aldrei fá svona háa prósentu sjálfboðaliða í Ástralíu.“

„Þetta bendir til þess hversu seig þið eruð og þurfið að vera, vegna veðurskilyrða og hversu afskekkt þið eruð. En þið hafið líka lært af þeim fjölmörgu atvikum sem upp hafa komið, eins og jarðskjálftum, snjóflóðum og eldgosum,“ segir hann. 

Hvað þarf að hafa í huga 

Richardson nefnir nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga við náttúruhamfarir. Fyrst og fremst segir hann nauðsyn að vera með nóg af mat og vatni, útvarp, einhvers konar blys og brottflutningsáætlun. Þá þarf fólk að hugsa út í hvað það gerir ef það getur ekki snúið aftur heim til sín í kjölfar hamfara, hvert það getur farið og hvar það getur gist.

Þá nefnir hann mikilvægi þess að vernda þá hluti sem hafa einhverja þýðingu fyrir fólk, persónulega muni, og hafa í huga að vernda þá ef til þess skyldi koma að það þurfi að yfirgefa heimili sín. Þá þarf einnig að huga að gæludýrum og öðrum húsdýrum og vera með áætlun fyrir þau.

Hægt að spá fyrir um eldgos en ekki afleiðingar þess

Ísland er mjög virk eyja og margt sem hætta stafar af en þar má meðal annars nefna jarðskjálfta, eldgos og snjóflóð. „Þetta eru stórfelldar hættur sem fólk þarf að takast á við daglega,“ segir Richardson og bætir við: „Það er hægt að segja fyrir um hvort eldgos muni eiga sér stað en það er erfitt að spá fyrir um afleiðingar þess, hvaða áhrif það hefur.“

„Það er margt sem fólk þarf að vera meðvitað um og það er erfitt á fallegum dögum þegar veðrið er gott og sólin skín, fólk hugsar ekki endilega um þessa hluti þá,“ segir hann.

Ferðamenn í aukinni hættu

Þá segir hann að ferðamenn séu í aukinni hættu vegna þess að þeir þekkja ekki umhverfið og hver áhættan er eða hverjar afleiðingarnar geta verið. „Þeir ferðast um áhættusvæði og ég veit að þetta er eitthvað sem stjórnvöld hugsa mikið til og gera áætlanir um.“  

Richardson heldur annað erindi eftir hádegi í dag þar sem hann mun fjalla um andlegar afleiðingar náttúruhamfara en fyrir fimm árum áttu sér stað skæðir skógareldar í Ástralíu sem höfðu í för með sér ófyrirsjáanlegar andlegar afleiðingar sem fólk er enn að takast á við fimm árum seinna.

Ráðstefnan kallast IDRiM2017 og er haldin í samvinnu við Öndvegissetrið NORDRESS, sem stýrt er af Háskóla Íslands en hér er hægt að sjá dagskránna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert