„Íslensk tunga aldrei í forgangi“

Eins og sjá má er auglýsingin á ensku.
Eins og sjá má er auglýsingin á ensku. Rax / Ragnar Axelsson

„Lögbrot er lögbrot og það hlýtur að eiga að bregðast við því. Þú nefnir forgangsröðun – það er einmitt það sem ég hef verið að benda á. Íslensk tunga er aldrei í forgangi,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, íslenskuprófessor við Háskóla Íslands, í bréfi til Neytendastofu.

Prófessorinn hefur staðið í bréfaskriftum við Neytendastofu vegna auglýsinga á öðrum tungumálum en íslensku hérlendis. Nýjasta dæmið um slíkt er risavaxin auglýsing sem fataverslunin H&M fékk leyfi til að setja upp á Lækjartorgi. Auglýsingin er alfarið á ensku.

Neytendastofa mun senda H&M bréf

Í 8. grein íslenskra laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins segir að auglýsingar, sem höfða eigi til íslenskra neytenda skulu vera á íslenskri tungu og er Neytendastofu gert að framfylgja boðum og bönnum laganna.

Eiríkur birtir samskipti sín við Neytendastofu á fésbókarsíðu sinni, en tilefni bréfaskrifta Eiríks var ekki einungis auglýsing H&M á Lækjartorgi, heldur auglýsingar á öðrum tungumálum almennt.

Neytendastofa hefur samkvæmt bréfinu til Eiríks tekið þrjú mál til meðferðar vegna auglýsingar á öðru tungumáli en íslensku og nú telur stofnunin tilefni til að taka auglýsingu H&M til meðferðar, sem hefst með því að auglýsanda er sent bréf.

Enginn tapar nema íslenskan

Eiríkur segir að það muni lítil áhrif hafa. „Það er gott að stofnunin ætlar að skipta sér af auglýsingu H&M. En afskipti í formi vinsamlegrar ábendingar eru vitanlega marklaus í þessu tilviki – auglýsingunni er ekki ætlað að standa nema í nokkra daga hvort eð er. Auglýsandinn fær ókeypis athygli en sleppur við að gera nokkuð og Neytendastofa sleppur við að gera nokkuð annað en senda þessa vinsamlegu ábendingu. Allir eru glaðir og enginn tapar – nema íslenskan.“

Hann segist eiga bágt með því að trúa því að starfsmenn Neytendastofu verði ekki varir við fjölda auglýsinga á erlendum málum, sem augljóslega sé beint til íslenskra neytenda. „Slíkar auglýsingar blasa við manni daglega í fjölmiðlum og á skiltum,“ segir Eiríkur.

Fésbókarfærslu Eiríks má sjá hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert