Ljósanótt haldin í 18. skipti

Reyknesingar og gestir skemmta sér á Ljósanótt sem fram fer …
Reyknesingar og gestir skemmta sér á Ljósanótt sem fram fer í 18. sinn dagana 30. ágúst til 3. september næstkomandi. ljósmynd/Helgi Bjarnason

Ljósanótt er nú haldin í 18. skipti og verða fjölmargir viðburðir, bæði fastir og nýir, verða á dagskrá hátíðarinnar að þessu sinni.

„Við vorum að kynna helstu dagskráratriði í gær og skrifa undir samninga við helstu stuðningsaðila,“ segir Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, um Ljósanótt sem fram fer í Reykjanesbæ eftir rúma viku.

Ýmsir viðburðir fastir í sessi 

Það eru grunnskólabörn bæjarins ásamt elstu börnum leikskólanna, alls um 2.500 börn, sem setja hátíðina og hífa upp einn stærsta fána landsins. „Við saumum í hann nýjan bút á hverju ári þannig að hann verður stærri og stærri,“ segir Valgerður. Fánauppsetningin er einn af föstum viðburðum Ljósanætur.

Á föstudeginum verður margt við að vera, en einn helsti viðburðurinn þann daginn er bryggjuballið þar sem Bæjarstjórnarbandið kemur fram. „Bæjarstjórnarbandið er sérstakt fyrirbæri, því  að þessir pólitíkusar sem geta verið að karpa hér alla daga standa þar saman og spila og syngja fyrir bæjarbúa í sömu hljómsveitinni á Ljósanótt,“ segir Valgerður.

Árgangar ganga saman 

Á laugardag verður mikil barnadagskrá í gangi, en aðalviðburðurinn þann daginn er að sögn Valgerðar árgangagangan niður Hafnargötu sem er aðalgata bæjarins. Húsnúmer götunnar eru þá merkt ákveðnum ártölum og fyrir framan húsin safnast fólk sem fætt er sama ár og gengur svo saman niður á hátíðarsvæðið.

„Í bæinn koma rosalega margir brott fluttir bæjarbúar til þess að vera viðstaddir þessa göngu,“ segir Valgerður. Eftir gönguna hefst síðan hátíðardagskrá sem endar með flugeldasýningu um kvöldið.

Aðrir dagskrárliðir eru meðal annars heimatónleikar, myndlistasýningar í Duus húsi, hjólbörutónleikar, Queen messa, Ljósanæturgolfmót auk þess sem verslanir verða með opið lengur fram á kvöld.

Hægt er að nálgast dagskránna í heild sinni á heimasíðu Ljósanætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert