„Var ekki ölvaður þá“

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ofurölvi maður var handtekinn við Skjólbraut í Kópavogi á tíunda tímanum í gærkvöldi en hann er einnig grunaður um að hafa valdið umferðaróhappi fyrr um daginn. Maðurinn segist ekki hafa verið orðinn ölvaður þegar það varð. Hann gistir fangageymslur lögreglu vegna ástands, segir í dagbók lögreglunnar.

Lögreglan hafði afskipti af ungum manni í Skeifunni síðdegis í gær vegna vörslu fíkniefna. Nokkru síðar var ferð bifreiðar stöðvuð í Skeifunni en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Um kvöldmatarleytið var ökumaður bifreiðar stöðvaður í Laugalæk fyrir að aka bifreið undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökuréttindum.

Skömmu eftir miðnætti var bifreið stöðvuð á Suðurlandsbraut af lögreglu en ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur.

Um tíuleytið í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í Birkigrund og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, aka ítrekað sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna.

Þrettán ára gamall drengur missti stjórn á vespu sem hann ók við Versali hjá Salaskóla upp úr klukkan 22 í gærkvöldi. Drengurinn ók vespunni á málmgirðingu og var fluttur á slysadeild með minni háttar meiðsl á fæti.

Lögreglan handtók konu í annarlegu ástandi í Mjódd um fjögurleytið í nótt en hún er grunuð um þjófnað. Hún er vistuð fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert