Verði nýttur til uppbyggingar fyrir fatlaða

Lagt er til að fasteignasjóðurinn verði nýttur til að jafna …
Lagt er til að fasteignasjóðurinn verði nýttur til að jafna aðstöð sveitarfélaga við uppbyggingu fasteigna sem nýta á til þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir. ljósmynd/norden.org

Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga mun fá nýtt hlutverk verði frumvarp samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins að lögum. Frumvarpið var til umræðu á fundi ríkisstjórnar í morgun.

Fasteignasjóðurinn hefur í dag það hlutverk að leigja og selja fasteignir, sem ríkið hafði nýtt til þjónustu við fatlað fólk. Sjóðinum var komið á fót í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 og tók hann þá yfir fasteignir í eigu ríkisins sem nýttar höfðu verið í þjónustu við fatlað fólk.

Verði frumvarpið hins vegar samþykkt, þá verður sjóðurinn einnig nýttur í að jafna, með fjárframlögum, aðstöðu sveitarfélaga við uppbyggingu fasteigna sem nýta á til þjónustu við fatlað fólk með miklar og/eða sértækar stuðningsþarfir.

Í sameiginlegri viljayfirlýsingu sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu nú í sumar, er gert ráð fyrir því að jöfnun á aðstöðu sveitarfélaga muni fyrst og fremst felast í framlögum til byggingar búsetukjarna fyrir fatlaða íbúa, jöfnunar á íþyngjandi kostnaði vegna langtímaleigusamninga um húsnæði fyrir fatlað fólk og nauðsynlegra endurbóta á eldra íbúðarhúsnæði til að mæta kröfum um verulegar endurbætur vegna mikillar þjónustu- og stuðningsþarfar

Er í viljayfirlýsingunni  gert ráð fyrir því að veitt verði samtals allt að 325 milljónum kr. úr fasteignasjóði í framlög til framangreindra verkefna á árinu 2017, verði frumvarpið að lögum.

Fasteignasjóðurinn mun þó eftir sem áður fara með réttindi og skyldur er tengjast fasteignum í eigu ríkisins sem nýttar eru í þjónustu í málaflokknum og er í frumvarpsdrögunum gert ráð fyrir að fjármögnun verði með svipuðum hætti og verið hefur, þ.e. annars vegar sé um að ræða tekjur tengdar sölu og leigu fasteigna sjóðsins og hins vegar framlög af tekjum Jöfnunarsjóðs vegna málefna fatlaðs fólks.

Er ráðherra falið að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi fasteignasjóðsins, svo sem um skilyrði og fyrirkomulag á úthlutun framlaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert