Refsing fyrir mútur verði þyngd

Undirbúningur lagabreytinga um að þyngja hámarksrefsingu fyrir mútuboð til opinberra …
Undirbúningur lagabreytinga um að þyngja hámarksrefsingu fyrir mútuboð til opinberra starfsmanna og refsingar fyrir mútubrot í einkageiranum stendur yfir í dómsmálaráðuneytinu. mbl.is/Golli

Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna um glæpi og fíkniefni (UNODC) hvetur íslensk stjórnvöld til að vinna áfram að lagabreytingum sem hafa verið í undirbúningi um að þyngja hámarksrefsingu fyrir mútuboð til opinberra starfsmanna og refsingar fyrir mútubrot í einkageiranum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands þar sem vísað er í mat á því hvernig íslenskum stjórnvöldum hefur gengið að innleiða ákvæði 3. og 4. kafla Sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu sem Ísland er aðili að.

Drög að frumvarpi um breytingar á almennum hegningarlögum vegna mútubrota voru kynnt á vef dómsmálaráðuneytisins í vor í aðdraganda þess að leggja málið fram á Alþingi. Með frumvarpinu er komið til móts við tilmælin með því að leggja til að hámarksrefsing fyrir mútuboð til opinberra starfsmanna verði sex ára fangelsi í stað fjögurra og hámarksrefsing fyrir mútubrot í atvinnurekstri verði fimm ára fangelsi í stað þriggja ára.

Mútubrot, peningaþvætti og sakamálasamvinna

Í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins kemur fram að íslensk stjórnvöld hafa ráðist í ítarlega skoðun á því hvernig ákvæði 3. og 4. kafla sáttmálans endurspeglast í íslenskum lögum og lagaframkvæmd en fulltrúar UNODC hafa síðan farið yfir þá upplýsingagjöf.

Kafli 3 í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu fjallar um það athæfi sem telst refsivert samkvæmt sáttmálanum, svo sem mútubrot, peningaþvætti og fleira. Kafli 4 fjallar um alþjóðlega sakamálasamvinnu, svo sem framsal og samvinnu lögregluliða.

Næstu skref felast í því að meta hvernig aðildaríkjum samningsins hefur gengið að innleiða ákvæði 2. kafla um forvarnir gegn spillingu og 5. kafla sem fjallar um endurheimt eigna í tengslum við refsiverðan verknað.

Hér má nálgast samantekst UNODC um frammistöðu Íslands þegar kemur að innleiðingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert