Barði móður sína með hillubút

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

28 ára gamall karlmaður var í dag dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar fyrir alvarlega líkamsárás á móður sína. Árásin var framin á heimili hennar og hlaut hún umtalsverða áverka af. Hann var dæmdur til greiða móður sinni 800 þúsund krónur í miskabætur auk um 560 þúsund króna kostnað sem hlaust af málaferlunum.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru á hendur manninum 5. september. Hann var ákærður fyrir að hafa veist að móður sinni á heimili hennar 3. maí og slegið hana ítrekað í höfuðið með hillubút úr tré. Hún hlaut við það tannarbrot, tannarliðhlaup, opið sár á vör og munnholi, auk yfirborðsáverka á höfði og hálsi.

Brotaþoli krafðist tveggja milljóna króna í miskabætur frá syni sínum en maðurinn játaði brotið skýlaust. Fram kemur að maðurinn eigi nokkurn sakaferil að baki en hann hafi síðast í júní verið dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisrefsingar fyrir umferðarlagabrot og brot gegn valdstjórninni. Refsingin var því ákveðin sem hegningarauki og bætist við þann dóm sem hann hlaut fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert