Drottningar saman í víking

Burlesque. Margrét Erla Maack er dansari og skemmtir fáklædd fullorðnum …
Burlesque. Margrét Erla Maack er dansari og skemmtir fáklædd fullorðnum áhorfendum. Ljósmynd/Leifur Wilberg

„Við hittumst fyrir tilviljun á Slipper Room í New York í sumar, en það er kabarettstaður sem blandar saman m.a. dragi, burlesque og sirkusatriðum. Við vorum bókaðar til að vera með atriði sama kvöldið,“ segir Margrét Erla Maack burlesque-dansari í samtali við Morgunblaðið um það þegar hún rakst óvænt á dragdrottninguna Gógó Starr við að skemmta.

„Við komumst að því að atriðin okkar spila mjög vel saman, þegar við erum tvær að sýna þá er skemmtileg fjölbreytni. Gógó Starr getur bæði verið dragdrottning og gert svokallað „boy-lesque“, sem er þá karlmaður með brjóstadúska o.þ.h. Við sögðum því í hálfkæringi, „ættum við ekki að fara saman í Evrópuferðalag næsta sumar?““

Dragdrottning Íslands

Sigurður Heimir Guðjónsson er dragdrottningin Gógó Starr og ber titilinn „dragdrottning Íslands“. „Ég stunda drag af því að að mér finnst það innilega töfrandi leið til að koma fram, tjá sig og skemmta áhorfendum,“ segir Sigurður Heimir. Hann kveðst vera sá eini sem stundar boy-lesque eða jafnvel „drag-lesque“ á Íslandi.

Margréti Erlu og Sigurði Heimi leist svo vel á Evrópuferðarhugmyndina að þau ákváðu að safna fyrir henni á söfnunarsíðunni Karolina Fund, en í gærmorgun var verkefnið 88% fjármagnað í gegnum síðuna. „Flestir sem styrkja ferðalagið eru að kaupa miða á farvel-sýningu í vor, þar sem við ætlum að sýna það sem við verðum að ferðast með,“ segir Margrét.

Hún segir þau nú þegar vera komin með tvær bókanir fyrir næsta sumar.

„Við erum með atriði sem koma eins og púsl inn í aðrar sýningar, sem eru fastir liðir fyrir fastakúnna. Því þarf ekki að auglýsa okkur sérstaklega. Markmiðin með ferðinni eru m.a. að sýna fólki erlendis á hvaða stað þessi jaðarmenning er hérlendis. Við viljum sýna fram á að það sé til burlesque- og dragsena á Íslandi. Eins að búa til tengslanet og fá erlenda listamenn til að koma til Íslands. Við erum að sækja okkur þekkingu og hugmyndir fyrir námskeið sem við höldum á Íslandi, t.d. um það hvernig á að halda svona sýningar,“ segir Margrét Erla.

Í kvöld verða þau með skemmtun á Gauknum til að ljúka söfnuninni en vinkonur þeirra, dragdrottningarnar Bibi Bioux, Ginger Biscuit, Lolla Matt, Deff Starr, Jenny Purr og Wonda Starr, verða þeim þar einnig til halds og trausts við að skemmta.

Að vera öruggur í eigin skinni

Gógó Starr, dragdrottning Íslands.
Gógó Starr, dragdrottning Íslands.


„Burlesque eru lítil, stutt grínatriði fyrir fullorðið fólk, þar sem oft er farið úr fötunum,“ segir Margrét Erla, en um drag segir hún að það sé leikur með kyngervi og ýkjur tengdar því. Hún segir að RuPaul, bandarísk dragdrottning, hafi lýst dragi þannig: „Við fæðumst nakin og allt annað er drag“.

„Þetta er mjög skemmtilegt, maður er að leika sér með sína kynvitund og sína útgeislun. Það er svo gaman að gera þetta og vera öruggur í eigin líkama, sama hvernig líkama maður er með. T.d. í boy-lesque, að nota bara þann líkama sem maður er með jafnvel þó að brjóstin og mjaðmirnar vanti,“ segir Sigurður Heimir, sem finnst gaman að brjóta upp listformið og hlakkar til að skemmta fólki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert