Flugmenn hjá Icelandair funda á morgun

Flugvél Icelandair.
Flugvél Icelandair. mbl.is/Sigurður Bogi

Samningur Félags íslenskra atvinnuflugmanna við Icelandair rennur út 30. september. Viðræður þeirra á milli hafa staðið yfir undanfarið, síðast í þessari viku, og er næsti fundur fyrirhugaður á morgun.

„Það er ekkert farið að sjá fyrir endann á þessu en það eru alla vega viðræður í gangi,“ segir Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

„Hvessti aðeins á tímabili“

Síðasti samningur við Icelandair var undirritaður í desember 2014. Um vorið sama ár höfðu flugmenn hjá Icelandair farið í stutt verkfall sem stóð yfir þangað til lög voru sett á það.

„Það hvessti aðeins á tímabili 2014. Við höfum ekki verið í verkfalli síðan við fengum lög á okkur eftir hálfan sólarhring. Við erum ekki þekktir fyrir að vera mikið í verkfalli,“ segir Örnólfur aðspurður.

Rúm þrjú ár eru liðin síðan flugmenn hjá Icelandair fóru …
Rúm þrjú ár eru liðin síðan flugmenn hjá Icelandair fóru síðast í verkfall. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Þrír aðrir samningar að losna 

Auk Icelandair losna samningar Félags íslenskra atvinnuflugmanna við þrjá aðila til viðbótar á næstu misserum, eða Landhelgisgæsluna, Air Iceland Connect og Air Atlanta, en stutt er síðan félagið samdi við flugskólana. Samtals er félagið með samninga við tíu aðila.

Örnólfur vill ekkert tjá sig um hvað flugmenn fara fram á í samningaviðræðum sínum við Icelandair. Hann nefnir þó að spurn eftir flugmönnum sé almennt mikil og flugmannaskortur hafi birst víða, eins og hjá breska lággjaldaflugfélaginu Ryanair. „Umhverfið hefur breyst. Það er mikil eftirspurn eftir flugmönnum.“

Alls eru á milli 800 til 900 virkir félagar í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna. Þar af störfuðu 530 hjá Icelandair í sumar.

Flugvirkjar hjá Icelandair einnig í kjaraviðræðum

Flugvirkjar hjá Icelandair eiga einnig í samningaviðræðum. Flug­virkja­fé­lag Ísland og Sam­tök at­vinnu­lífs­ins funduðu í fyrsta sinn með rík­is­sátta­semj­ara á þriðjudaginn vegna þeirra viðræðna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert