Starfar í neyðarteymi í Karíbahafinu

Sólrún María Ólafsdóttir, sendifulltrúi og starfsmaður Rauða krossins á Íslandi.
Sólrún María Ólafsdóttir, sendifulltrúi og starfsmaður Rauða krossins á Íslandi. Ljósmynd/Rauði krossinn á Íslandi

Sólrún María Ólafsdóttir, sendifulltrúi og starfsmaður Rauða krossins á Íslandi er á leið í Karíbahafið þar sem hún mun starfa í svokölluðu FACT-neyðarteymi (Field Assessment Coordination Team) á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

Í tilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi kemur fram að Sólrún María mun sinna svokallaðri PMER stöðu (Planning, Monitoring, Evaluation and Reporting position) og verður starfsstöð hennar í Trinídad & Tóbagó. Þetta er fyrsta sendifulltrúaferð hennar fyrir hönd Rauða krossins á Íslandi en frá því í janúar 2017 hefur hún sinnt starfi verkefnastjóra á landsskrifstofu Rauða krossins á Íslandi.

Sólrún María mun aðstoða við störf á eyjunum sem verst urðu úti vegna fellibyljarins Irmu. Þá verður hún einnig í stuðningi við þær eyjar sem nú búa sig undir komu fellibyljarins Maríu.

Að sögn Kristínar S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdastjóra Rauða krossins, tekur ferð Sólrúnar að öllum líkindum fimm til sex vikur. „Rauði krossinn á Íslandi er þess fullviss að starfskraftar hennar verði fullnýttir í þágu þeirra sem standa höllum fæti í kjölfar þessara veðurhamfara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert