Tillaga Bjarna „óásættanleg“

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst óásættanlegt hvernig þetta er sett upp,” segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, um tillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um endurskoðun stjórnarskrárinnar í áföngum á næstu þremur kjörtímabilum.

„Þarna erum við að tala um mjög langt ferli. Það er verið að taka erfiðustu málin fyrst sem þýðir að þetta mun festast inni á þinginu,” segir Birgitta og bætir við að enginn varnagli sé fyrir hendi í tillögunni.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Vonar að um vinnuplagg sé að ræða

„Feneyjanefndin sagði að það væri ólýðræðislegt þegar svona háir þröskuldar væru á þátttöku. Þetta er svo langt út fyrir það sem nefndinni finnst ásættanlegt,” segir hún og vonast til að Bjarni sjái að tilefni sé til að skoða það að samþykkja breytingarákvæði áður en þingið lýkur störfum.

Breytingarákvæðið snýst um að meirihluta þings þyrfti til að samþykkja breytingar á stjórnarskránni og síðan þyrfti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ef svo er þá er maður tilbúinn að skoða þessa tillögu frá honum. Það er ekki þannig að Sjálfstæðisflokkurinn einn eigi að taka ákvörðun um hvernig við högum breytingum á stjórnarskrá. Ég vona að þetta sé vinnuplagg hjá honum því þetta er langt frá því sem hefur verið kallað eftir. Ég myndi eiga mjög erfitt með að fá mitt fólk til að samþykkja svona ferli án þess að það væri skýr aðkoma þjóðarinnar og öryggisventill.”

Feneyjanefndin er Evrópunefnd um lýðræði með lögum. Hún er ráðgefandi fyrir Evrópuráðið í stjórnarskrármálum. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bað Feneyjanefndina um að skoða stjórnarskrárfrumvarpið árið 2013.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert