10 vikna kvikmyndanámskeið í Hinu húsinu

Stilla úr stuttmyndinni Orðskrípi eftir Garðar Þór Þorkelsson sem verður …
Stilla úr stuttmyndinni Orðskrípi eftir Garðar Þór Þorkelsson sem verður aðstoðarkennari á námskeiðinu.

Námskeið í kvikmyndagerð og vídeólist fyrir ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára fer af stað í sjötta sinn hér á landi þann 28. september. Námskeiðið stendur í 10 vikur og er haldið í Hinu húsinu og er á vegum Lee Lynch og Þorbjargar Jónsdóttur, sem saman stofnuðu Teenage Wasteland of the Arts úti í Los Angeles þar sem þau bjuggu um árabil.

„Námskeiðið er fyrir ungt fólk sem vill prófa sig áfram í kvikmynda- og myndbandagerð. Ekki þarf að hafa neina reynslu en margir sem klára námskeiðið hjá okkur halda síðan áfram í frekara listnám, hvort sem það er í Listaháskóla Íslands eða öðrum lista- og kvikmyndaskólum,“ segir Lee. Námskeiðið fer fram einu sinni í viku, á fimmtudögum milli kl. 19 og 21. „Búnaður er á staðnum en við aðstoðum líka ef fólk vill nota sinn eigin búnað. Nemendur mega gera hvað sem þeir vilja, sumir gera heimildarmyndir, aðrir stuttmyndir, teiknimyndir eða hvað sem er.“

Garðar Þór Þorkelsson ætlar að kenna á námskeiðinu ásamt Lee, en hann tók sjálfur þátt í því árið 2013 og fékk nýlega inngöngu í mastersnám í kvikmyndagerð við National Film and Television School á Englandi. Hann frumsýndi nýjustu heimildarmyndina sína, Orminn, á Skjaldborgarhátíðinni í sumar.

Í lok námskeiðsins verður afrakstur nemenda sýndur í opinni sýningu í Hinu húsinu. Skráning fer fram á Facebook-síðu Hins hússins.

Stilla úr stutthreyfimyndinni Waxmen in Motion eftir Róbert Keshishzadeh. „Nemendur …
Stilla úr stutthreyfimyndinni Waxmen in Motion eftir Róbert Keshishzadeh. „Nemendur mega gera hvað sem þeir vilja, sumir gera heimildarmyndir, aðrir stuttmyndir, teiknimyndir eða hvað sem er,“ segir Lee.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert