Útrýma hættu af Hádegissteini

Hnífsdalur. Fyrir miðri mynd er búið að draga rauðan hring …
Hnífsdalur. Fyrir miðri mynd er búið að draga rauðan hring utan um staðsetningu Hádegissteins. Ljósmynd úr minnisblaði

Ákveðið hefur verið vinna að því að útrýma þeirri hættu sem talið er að stafi af Hádegissteini í Hnífsdal. Þetta ákvað bæjarráð Ísafjarðarbæjar á fundi í morgun. Steinninn verður annaðhvort sprengdur eða festur niður.

Ráðið byggir ákvörðun sína meðal annars á minnisblaði sem starfsmenn Snjóflóðaseturs Veðurstofunnar á Ísafirði, unnu að undirlagi Veðurstofu Íslands, eftir vettvangsferð.

Samkvæmt minnisblaðinu vegur steinninn um 100 tonn og hefur staðið í hlíðinni í um það bil 10 þúsund ár, eða frá lokum ísaldar. Ekkert bendir hins vegar til þess að steinninn hafi hreyfst úr stað nýverið, eins og talið var. Það er mat höfunda að skóflausa röndin sem sést á steininum að ofanverðu sé til komin vegna átroðnings þar sem prílað hefur verið upp á grjótið, en ekki af völdum hreyfinga steinsins. „Engin ummerki eru um að breytingar hafi orðið umhverfis steininn á síðustu áratugum, umfram veðrun og átroðning eða að hann hafi nýlega hreyfst úr stað,“ segir í minnisblaðinu. Hætta af steininum sé því ekki metin meiri nú en hún hafi verið undanfarna áratugi.

Hádegissteinn vegur um 100 tonn og situr á sprungnu bergi. …
Hádegissteinn vegur um 100 tonn og situr á sprungnu bergi. Undir honum er mikið holrými. Ljósmynd úr minnisblaði

Í minnisblaðinu segir þó að steinninn sitji tæpt í brattri hlíð ofan á uppbrotnu klettabelti. Veðrun og þyngd steinsins muni halda áfram að vinna á beltinu. „Það er því fullt tilefni til þess að kanna möguleika á að minnka hættuna af steininum.“

Fram kemur að áður hafi verið nefnt að hægt sé að sprengja steininn upp í svo litla mola að ekki stafi hætta af þeim þegar þeir velta niður á jafnsléttu. Hin leiðin sé að festa steininn með ankerum og/eða steyptri undirstöðu til að koma í veg fyrir að hann hreyfist frekar. „Bæjarráð samþykkir að vinna að því að útrýma hættunni af Hádegissteini í samráði við Ofanflóðasjóð,“ segir í fundargerð ráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert