Hún bætti ári við lífið með óvæntum burði

MæjaBella nýborin 18. sept. sl. með tvílembingana sína.
MæjaBella nýborin 18. sept. sl. með tvílembingana sína.

Ærin MæjaBella kom eiganda sínum heldur betur á óvart þegar hún bar tveimur lömbum núna upp úr miðjum september, sem er býsna óvenjulegt. Eigandinn, Ásta Þorbjörnsdóttir, bóndi á Grjótá í Fljótshlíð, tók ungviðinu fagnandi enda er hún mikið fyrir dýr og hefur meðal annars fóstrað móðurlausa grágæsarunga.

„Ég var búin að úrskurða hana gelda í vor þegar ég sleppti henni í úthagann, svo það kom nokkuð á óvart þegar ég sá í byrjun september að hún var komin að burði. Hinn 18. september bar hún svo tveimur heilbrigðum lömbum, hrút og gimbur,“ segir Ásta Þorbjörnsdóttir, bóndi á Grjótá í Fljótshlíð, um kindina sína, hana MæjuBellu, sem tók upp á því að fara út fyrir dagatal sauðkindanna, en eins og landsmenn vita fá flestar kindur fang um jól og áramót og bera svo lömbum að vori, í maí og júní.

„Af þessum óvenjulega burðartíma hjá MæjuBellu má sjá að hún hefur fengið fang í apríl, því meðgangan er um fimm mánuðir. Hún hafði í vor frjálsan aðgang að nokkrum hrútum og fyrir vikið er ekki hægt að segja hver faðir þessara óvæntu haustlamba er,“ segir Ásta og hlær.

Henni tókst að snúa á mig

Ærin Mandla með lömb sem eru morkápótt og svartflekkótt. Mandla …
Ærin Mandla með lömb sem eru morkápótt og svartflekkótt. Mandla er skemmtileg kind og Ásta hefur kennt henni sirkuslistir.


Ásta segir að vissulega gerist það sjaldan að kindur beri lömbum að hausti, en þó séu alltaf dæmi þar um.

„Þetta hefur gerst einu sinni hjá mér áður, þá var það geldur gemlingur sem bar að hausti, einmitt um miðjan september rétt eins og MæjaBella.

„Ég ætlaði að farga MæjuBellu núna í haust því hún er orðin fullorðin, átta vetra – en ég læt mínar kindur yfirleitt ekki verða eldri en átta vetra – en núna tókst henni að snúa á mig og næla sér í eitt aukaár í ævi sína.“ Ásta segir MæjuBellu vera frekar gæfa kind og gaman að vera í nálægð hennar. „Hún hefur alla tíð verið uppáhaldskind hjá mér, hún er sérstakur persónuleiki og góð kind að öllu leyti.“

Sýnishorn af öllum litum

Hér er Ásta búin að marka lömb MæjuBellu sem hafði …
Hér er Ásta búin að marka lömb MæjuBellu sem hafði ekki augun af þeim föngnum hjá Ástu.


Ásta segist hafa keypt MæjuBellu sem lamb úr annarri sveit, frá bænum Bólstað í Austur-Landeyjum.

„Það kom til af því að mig langaði svo mikið í kind í þessum lit, svartbotnótta, en ég átti enga slíka. Konan sem seldi mér hana heitir Mæja og hún var búin að gefa gimbrinni nafnið Bella, en þar sem ég átti fyrir aðra Bellu heima bætti ég nafni seljandans framan við, svo hún fékk nafnið MæjaBella,“ segir Ásta, sem er með um 130 kindur á Grjótá.

„Þær eru nú flestar hvítar, en ég legg þó upp úr því að eiga sýnishorn af öllum litum í mínu sauðfé. MæjaBella hefur reynst góð í að gefa af sér litrík svartbotnótt lömb, í sama lit og hún er sjálf, en hún hefur líka eignast svört lömb, flekkótt lömb og einu sinni gaf hún mér mórautt lamb, og svo auðvitað líka hvít. Hún er góð kind og hefur reynst mér vel, skilað þungum lömbum. Hún er frjósöm og hefur átt að meðaltali tvö lömb á hverju ári, hún hefur aðeins einu sinni verið einlembd og einu sinni var hún þrílembd.“

Saknaði þeirra mjög mikið

Hundurinn Dreki var vinur gæsarunganna og fylgdist með þeim.
Hundurinn Dreki var vinur gæsarunganna og fylgdist með þeim.


Ásta hefur alla tíð verið mikið fyrir dýr og hefur tekið að sér hinar ólíkustu skepnur.

„Ég fann fyrir tveimur árum þrjá yfirgefna grágæsarunga í hreiðri sem voru nýkomnir úr eggjunum. Ég tók þá að mér og ól þá upp. Einn þeirra drapst tveggja daga gamall en hinir tveir döfnuðu vel. Það var virkilega gaman að þeim, þeir voru gæfir og góðir og mikil átvögl. Skemmtilegir persónuleikar. Hundurinn minn hann Dreki var mjög spenntur fyrir þeim og honum samdi vel við ungana, enda er hann vinur allra. En þeir áttu það til að hvæsa á hann ef þeim fannst hann of aðgangsharður,“ segir Ásta og bætir við að hún hafi saknað gæsarunganna mikið þegar þeir voru ekki lengur hjá henni.

Vel fór ævinlega á með grágæsarungunum hennar Ástu.
Vel fór ævinlega á með grágæsarungunum hennar Ástu.

„Ég keyrði með þá til Grindavíkur þegar þeir voru orðnir fleygir og sleppti þeim á tjörn þar rétt vestan við bæinn. Þar er mikið fuglalíf og ekki verið að skjóta gæsir þar. Hér hjá mér var meiri hætta á því. Það var erfitt að skilja við þessa unga, þeir eltu mig nokkrar ferðir að bílnum á þessari kveðjustund. Það endaði með að ég varð bara að láta mig hafa það að keyra burt frá þeim, sem var ekki auðvelt, það lá við að ég færi með þá aftur heim.“

Ásta með gæsarungana sem hún tók að sér móðurlausa.
Ásta með gæsarungana sem hún tók að sér móðurlausa.



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert