Gekk ekki í takt við þingflokkinn

Fjármála- og efnahagsráðherra - Benedikt Jóhannesson.
Fjármála- og efnahagsráðherra - Benedikt Jóhannesson. Eggert Jóhannesson

„Ég geri ráð fyrir að þetta hafi snúist um að virða það samkomulag sem formennirnir hafa gert um þinglok,“ segir Pawel Bartozsek, þingmaður Viðreisnar. Dagskrártillaga þingmanna Pírata og Samfylkingar, um að taka í dag fyrir frumvarp Pírata um stjórnarskrárbreytingar var felld í dag með 41 atkvæði gegn 13. Fimm þingmenn Viðreisnar greiddu ekki atkvæði.

Í atkvæðagreiðslunni greiddi Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, atkvæði með öðrum hætti en aðrir þingmenn flokksins. Benedikt hafnaði tillögunni en fimm þingmenn Viðreisnar kusu að sitja hjá. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var fjarverandi.

Pawel segist aðeins geta svarað fyrir sig. Hann sé almennt þeirrar skoðunar að til greina hefði komið að ræða stjórnarskrárbreytingar. Honum hafi hins vegar ekki þótt mögulegt að hægt hefði verið að leiða málið til lykta með þeim hætti sem Píratar vildu gera. Tillagan hafi verið „mjög gölluð.“ Því hafi honum þótt rétt að sitjá hjá við afgreiðslu málsins. „Ég tók eftir því að margir í þingflokknum voru sammála mér.“

Ekki náðist í Benedikt við vinnslu fréttarinnar en Pawel segir að honum þyki líklegt að formaðurinn hafi viljað standa við það samkomulag sem hann gerði við hina formennina um þinglok – án þess að hann viti það fyrir víst. Hann segir af og frá um hafi verið að ræða einhvers konar ágreining eða vantraust á formanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert