Glerið erfið vara fyrir Endurvinnsluna

Drykkjarumbúðir úr áli og plasti eru sendar til útlanda í …
Drykkjarumbúðir úr áli og plasti eru sendar til útlanda í endurvinnslu, það sama á hins vegar ekki við um glerið. mbl.is/Kristinn

Allar ál- og plast umbúðir sem skilað er til Endurvinnslunnar eru sendar úr landi og endurunnar. Glerflöskurnar fara hins vegar ekki sömu leið, heldur enda sem fylling á urðunarstöðum. „Persónulega myndum við vilja sjá minna af gleri af því að fyrir okkur er gler erfið vara,“ segir Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar.

Áldósirnar fara héðan til Bretlands og eru orðnar að nýrri áldós eftir 60 daga. Plastið fer til Hollands og Þýskalands og er endurunnið þar í flísþræði, nýjar flöskur og plasthluti í bíla svo dæmi séu tekin. Meira að segja þau 40-50 tonn af plastpokum sem viðskiptavinir Endurvinnslunnar koma með þangað ár hvert eru send úr landi til endurvinnslu, ásamt pappa og öðrum efnum.

Það sama á hins vegar ekki við um glerið. Magnið af glerumbúðum sem komið er með í Endurvinnsluna fer engu að síður vaxandi, m.a. vegna aukins fjölda ferðamanna. Í fyrra var komið með um 6.733 tonn af drykkjargleri í Endurvinnsluna. Árið  2013 voru þetta 5.422 tonn og allt endar það sem fylling á urðunarstöðvum.

Glerflöskurnar eru ekki sendar úr landi, heldur enda sem fylling …
Glerflöskurnar eru ekki sendar úr landi, heldur enda sem fylling á urðunarstöðum. mbl.is/Árni Sæberg

Finnst glerið vera flottara

„Ferðamenn vilja fá sína drykki í gleri því það er flottara,“ segir Helgi. „Persónulega myndum við hins vegar vilja sjá minna af gleri.“

Hann segir mögulega umhverfisvænna að búa til fyrstu glerflösku en áldós. „En álið er síðan hægt að nota endalaust. Það er miklu auðveldara að endurvinna ál en að endurvinna gler, því að glerið er svo þungt í sér og erfitt að koma því frá sér.“

Í skýrslu sem verkfræðistofan Efla vann fyrir Endurvinnsluna og Úrvinnslusjóð árið 2014 er lokaniðurstaðan sú að frá umhverfislegu sjónarhorni borgi það sig að safna, flytja út, flokka og endurvinna gler frá Íslandi.  

Skýrslan nefnist Vistferilsgreining fyrir söfnun og endurvinnu glers og segir Helgi að þó að lokaniðurstaða skýrslunnar hafi verið sú að endurvinnslan borgi sig, þá sé umhverfisávinningurinn miðað við koltvísýringstonnin lítill.

mbl

Drykkjarumbúðir lítið sýnilegar í íslenskri náttúru

Skýrslan er orðin þriggja ára og Endurvinnslan var stofnuð 1989. Blaðamanni leikur því forvitni á að vita hvort að neytendur upplifi þetta mögulega sem svik, að hlutirnir séu ekki að gerast nógu hratt.

Helgi segir svo ekki vera og minnir á að ein af ástæðum þess að Endurvinnsla var stofnuð hafi verið til að losna við drykkjarumbúðir úr náttúrunni og þar telji menn að vel hafi tekist til. „Það má ekki gleyma þeim hluta að drykkjarumbúðir eru lítið í náttúru landsins og þetta er nokkuð sem margir ferðamenn hafa haft orð á sérstaklega.“

Vinna varðandi endurvinnslu glerumbúða sé líka í gangi, en hún sé öllu flóknari.

„Það er verið að vinna í því að reyna að samræma reglur um allt gler ekki bara drykkjargler, því auðvitað viljum við gera betur,“ segir hann. Eftir gerð skýrslunnar hafi verið farið í að skoða hvernig hægt sé að safna öllu gleri og þannig hafi sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu til að mynda hafið að skipuleggja söfnun á öðru gleri en drykkjargleri árið 2014.

„Síðan er búið að vera að skoða hvernig eigi að vinna glerið og hvort það eigi að senda það út.“ Slíkt sé flókið ferli. Glerið sé þungt efni og dýrt í flutningum og því þurfi að skoða hvernig eigi að flytja það, geymsluaðferðir og hvort slíkt hafi neikvæð áhrif á mögulegan umhverfisávinning.

Hugmyndin um glerverksmiðju skoðuð

Meðal þeirra hugmynda sem hafa verið skoðaðar eru hvort hægt sé að endurvinna gler hér á landi. „Það hefur verið prufað að nota gler í malbik, en það hentaði ekki,“ segir Helgi. Eins hefur verið skoðað að nota gler til að búa til glermuni, en slíkt krefst flókinnar flokkunar þar sem gler er svo misjafnt að gæðum.“

Hugmyndin um glerverksmiðju hefur einnig verið skoðuð, en til að slík verksmiðja væri arðbær yrði hún að geta framleitt úr tífalt meira magni af gleri en fellur til á Íslandi. Einnig hefur verið kannað að búa til glerull til einangrunar, en enginn markaður fundist fyrir hana.

„Það er dýrt að endurvinna gler og þá vaknar líka sú spurning hvort að það borgi sig að gera eitthvað annað við peninginn sem meiri umhverfisávinningur er af,“ segir Helgi.

Þvotturinn á fjölnota flöskum líka óumhverfisvænn

Spurður hvort drykkjarfyrirtæki hér á landi geti ekki nýtt hluta af flöskunum segir hann mál ekki endilega einfaldast þar. „Ef það á að taka upp fjölnota gler þá vaknar sú spurning hver á að sjá um þvottinn. Þvotturinn sjálfur er líka óumhverfisvænn, því að það eru notuð mjög sterk efni í hann.“ Þá þurfi sérstakrar aðgæslu við varðandi fjölnota glerflöskur því þær megi ekki brotna og slíkt krefjist flutnings í kössum sem aftur kalli á aukið geymslupláss.

„Umhverfismál eru alltaf flókin og það er engin ein rétt leið í þessum efnum, því annars væri örugglega búið að fara hana,“ segir Helgi.

„Það vilja þó allir gera betur í þessum málum, því að það er mikill vilji til þess að bæta umhverfið, en spurningin er alltaf hvað er best að gera svo það skili sem mestum árangri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert