4-5 milljarða undir meðaltalinu

Hermann Jónasson, forstjóri ÍLS, á fundinum í dag.
Hermann Jónasson, forstjóri ÍLS, á fundinum í dag. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Þegar horft er til meðaltals á síðustu 15 árum yfir húsnæðisstyrki hvers konar sem hið opinbera veitir sést að í ár og í fyrra eru slíkir styrkir um 4-5 milljörðum undir meðaltali. Í ár setur hið opinbera í heild um 23 milljarða í húsnæðisstyrki. Þetta kom fram í erindi Hermanns Jónassonar, forstjóra Íbúðalánasjóðs, á Húsnæðisþingi sjóðsins í dag. Sagðist hann ekki vilja fullyrða hvort það vantaði fjárhæðir í þennan málaflokk, en að það væri allavega athugavert að vera undir meðaltali þegar það væru fordæmalausir tíma á húsnæðismarkaði og vöntun upp á 9 þúsund íbúðir á næstu þremur árum.

Húsnæðisstuðningur hins opinbera ekki að skila tilsettum árangri

Í samtali við mbl.is segir Hermann að það sé nauðsynlegt að koma fram með stefnu í þessum málaflokki.. „Húsnæðisstuðningur hins opinbera hefur ekki verið að skila þeim árangri sem við viljum og því er mikilvægt að við stöndum saman núna,“ segir hann. Þannig þurfi að setja slíka stefnu og forgangsraða stuðningi til þeirra sem þurfi á honum að halda, hvort sem það sé á leigu- eða eignamarkaði.

Þá segir hann að setja þurfi aukinn kraft í uppbyggingu og að auka framboð. „Það hefur heldur betur verið gert af núverandi stjórnvöldum,“ segir hann og vísar til húsnæðissamkomulagsins um að Íbúðalánasjóður fjármagni allt að 3.200 leiguíbúðir á viðráðanlegu verði á næstu 4-5 árum , en þegar er búið að veita stofnframlag í 900 þeirra.

Þrátt fyrir talsverða uppbyggingu undanfarið telur Íbúðalánasjóður að enn vanti …
Þrátt fyrir talsverða uppbyggingu undanfarið telur Íbúðalánasjóður að enn vanti um 5 þúsund íbúðir til að ná nýullpunkti og að 3 þúsund íbúðir til viðbótar við þá tölu þurfi að bætast við á næstu þremur árum. mbl.is/Ómar Óskarsson

4-5 milljarða undir meðaltali síðustu 15 ára

Árið 1995 voru um 10 þúsund íbúðir í félagslega kerfinu, en það nam um 10% af húsnæðisstofninum þá. Í dag eru um 137 þúsund íbúðir á landinu og ef hlutfallið væri það sama í ár og fyrir 22 árum væri fjöldinn um 14 þúsund. Aftur á móti eru leiguíbúðir í félagslega kerfinu aðeins um 4-5 þúsund í dag. Hermann segir að þetta megi rekja til þess að verkamannakerfið hafi verið selt árið 1998.

Hann segir ljóst að 5 þúsund íbúðir á þessum markaði sé of lítið, en líka að 20 þúsund sé of mikið. „Þetta liggur þarna einhvers staðar á milli,“ segir hann, en Íbúðalánasjóður vinnur nú að greiningu sem á að vera klár á næsta ári þar sem metið verður hversu mikinn fjölda þarf til viðbótar.

Betra jafnvægi 2020-2022

Í dag áætlar sjóðurinn að það vanti 5 þúsund íbúðir til að komast á núllpunkt framboðs og eftirspurnar á íbúðamarkaði, en að til viðbótar þurfi að bætast um 3 þúsund íbúðir á næstu þremur árum vegna fólksfjölgunar. Samtals gerir þetta því um 8 þúsund íbúðir á þremur árum.

Meðal fundargesta var fjöldi stjórnmálamanna, en þeir tóku bæði þátt …
Meðal fundargesta var fjöldi stjórnmálamanna, en þeir tóku bæði þátt í pallborðsumræðum og voru að hlusta á erindin. Hanna Andrésdóttir

Spurður hvort hann telji að sá núllpunktur náist á þessum þremur árum segir Hermann að hann vonist til þess að núverandi aðgerðir verði til þess að það styttist í jafnvægið. Hann er þó ekki tilbúinn að segja að það sé strax á þremur árum. „Árin 2020 til 2022 verðum við með betra jafnvægi,“ segir hann þó.

Í erindi sínu velti Hermann upp fjölda spurninga um húsnæðismarkaðinn, meðal annars hvort að farið hefði verið of langt varðandi í reglum sem hækkuðu byggingarkostnað. „Við búum allflest í góðu húsnæði, en höfum við gengið of langt?“ spurði hann og vísaði til breytinga á byggingarreglugerð árið 2012. Sagði hann byggingarkostnað hafa hækkað mikið vegna þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert