Enginn séns og engin von hér á landi

Guðrún Ásta Tryggvadóttir er ein þeirra sem hefur gefist upp …
Guðrún Ásta Tryggvadóttir er ein þeirra sem hefur gefist upp á húsnæðismarkaðinum hér á landi og flutti til Danmerkur. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson

„Eins mikið og mig langar að búa á Íslandi, ég elska Ísland og vil ekki fara frá mömmu sem er sjúklingur, þá erum við flutt til Danmerkur.“ Þetta sagði Guðný Ásta Tryggvadóttir, en hún var ein fjögurra kvenna sem fluttu erindi um upplifun sína af leigumarkaði á Húsnæðisþingi Íbúðalánasjóðs í dag.

Það má með sanni segja að sú lýsing sem kom fram í máli kvennanna hafi ekki verið björt og lýsti Guðrún því meðal annars hversu auðmýkjandi það hefði verið undanfarin ár að vera á leigumarkaðinum hér á landi.

Á ráðstefnunni hafði meðal annars komið fram að talsverður fjöldi þeirra sem eru á leigumarkaði leigja af fjölskyldu og ættingjum og búa þeir almennt við bæði meira leiguöryggi og hagstæðari kjör. Guðrún sagði aftur á móti að hún hefði ekkert slíkt bakland. Hún ætti ekki pabba né ömmur eða afa og þá væri móðir hennar ellilífeyrisþegi á örorku. Eins mikið og hún elskaði hana, þá gæti hún ekki aðstoðað sig þegar kæmi að húsnæðismálum.

Börn og fjölskylda - slæmar fjárhagslegar ákvarðanir

Guðrún sagði að fyrir nokkrum árum hafi hún tekið „verstu fjárhagslegu ákvörðunina“ sem hún gat tekið. „Ég varð ástfangin af manni sem átti börn.“ Þau hafi ákveðið að búa saman og fundið íbúð. Í tvö ár hafi þau hins vegar verið með það yfir höfði sér að íbúðin yrði seld.

„Svo eignuðumst við barn – ekki fjárhagslega góð ákvörðun,“ sagði Guðrún sem flutti erindi sitt blaðlaust. Hún fór svo yfir það hvernig þau fluttu í risíbúð með myglu síðasta vetur þar sem þau eignuðust sitt annað barn. Það hafi svo verið veikt og átt erfitt með öndun sem rakið sé til myglunnar.

Guðrún er sjálf grunnskólakennari og sagði hún að það að finna 3-4 herbergja íbúð hafi kallað á leiguverð sem væri jafngildi útborgaðra launa sinna. Hún hafði því verið í þeim hópi þar sem 40% ráðstöfunartekna færi í húsnæði, en samkvæmt Eurostat hefur það verið flokkað sem íþyngjandi húsnæðiskostnaður.

Engin von hér á landi og fluttu til Danmerkur

Þessu ástandi á leigumarkaðinum lýsti Guðrún sem hreinni angist fyrir þá sem væru að reyna að halda þaki yfir höfðinu. „Það er óþolandi að hafa menntað sig og eiga samt ekki séns, að það sé engin von hérna,“ sagði hún.

Eins og inngangsorðin vísa til ákváðu Guðrún og maðurinn hennar að flytja til Danmerkur fyrir um þremur mánuðum og sagði Guðrún að þar hafi þau fundið íbúð sem þau leigi af leigufélagi til lengri tíma, þau búi ekki við myglu og sjái fram á að geta borgað ásættanlegt hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnaðinn.

Sagði hún það gríðarlega auðmýkjandi að opna sig svona fyrir fullum ráðstefnusal, en að hún gerði þetta til að sýna fólki hvernig ástandið væri hjá mörgum fjölskyldum og einstaklingum sem væru á leigumarkaðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert