Nálgunarbann eftir ítrekað ofbeldi

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. Ófeigur Lýðsson

Karlmaður var í síðustu viku dæmdur í fjögurra mánaða nálgunarbann í Héraðsdómi Suðurlands. Rökstuddur grunur var uppi um að maðurinn hefði ítrekað beitt konu ofbeldi heimili hennar og í sex skipti brotið gegn fyrra nálgunarbanni. Það var lögreglustjórinn á Suðurlandi sem rak málið en dómur féll á mánudag.

Fram kemur í dómnum að maðurinn braut meðal annars gegn fyrra nálgunarbanni þegar hann mætti óboðinn heim til konunnar á meðan réttargæslumaður og lögreglumaður voru að taka af henni skýrslu vegna brota hans.

Dómurinn kvað á um að hann mætti ekki koma nær heimili hennar en 50 metra eða hafa samband við hana með einum eða öðrum hætti.

Maðurinn kærði dóminn til Hæstaréttar, sem vísaði kærunni frá. Í þeim úrskurði kemur fram að í engu sé vikið að þeim ástæðum sem kæran er reist á „heldur segir að varnaraðili muni skila greinargerð til Hæstaréttar þar sem meðal annars verði reifaðar málsástæður til stuðnings kröfu hans.“ Rétturinn segir að samkvæmt þessu séu slíkir annmarkar á kærunni að vísa verði málinu frá Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert