Björk greinir nánar frá áreitninni

Björk á tónleikum á tónlistarhátíðinni Fuji Rock í Japan í …
Björk á tónleikum á tónlistarhátíðinni Fuji Rock í Japan í sumar. Ljósmynd/Facebook-síða Bjarkar

Björk Guðmundsdóttir hefur tjáð sig frekar um kynferðislega áreitni sem hún varð fyrir af hendi danska leikstjórans Lars von Trier.

„Í anda #metoo langar mig að styðja konur um heim allan og greina frekar frá minni reynslu með danska leikstjóranum,“ skrifar Björk í Facebook-færslu sem hún birtir í dag.

Hún segir það afar erfitt að tjá sig um mál af þessu tagi, sérstaklega þegar þeir sem eiga í hlut hafi gert lítið úr frásögn hennar. Lars von Trier hefur alfarið hafnað ásökunum Bjarkar um að hann hefði áreitt hana kyn­ferðis­lega við gerð mynd­ar­inn­ar Dancer in the Dark. „Þetta er ekki rétt, en við vor­um svo sann­ar­lega eng­ir vin­ir. Það er staðreynd,“ sagði von Trier í viðtali við Jyl­l­ands-Posten.

Faðmaði og snerti hana ítrekað gegn vilja hennar

Björk setur fram lista með sex atriðum sem hún telur að flokka megi sem kynferðislega áreitni. Þar segir hún meðal annars frá því að Lars hafi hlaupið upp að henni eftir hverja töku, faðmað hana vel og lengi og strokið henni í margar mínútur, gegn hennar vilja. Þegar hún hafi beðið hann um að hætta þessu, tveimur mánuðum síðar, hafi Lars trompast og brotið stól fyrir framn alla á tökustaðnum. Eins og einhver sem hefur alltaf mátt láta vel að leikkonum sínum. Við vorum síðan öll send heim,“ skrifar Björk.

Björk lýsir því einnig hvernig Lars hafi í gegnum allt tökuferlið hvíslað að henni myndrænum kynferðislegum skilaboðum og oftar en ekki hafi eiginkona Lars verið viðstödd.

Þegar tökur stóðu yfir í Svíþjóð hótaði Lars að klifra frá svölunum í sínu herbergi yfir til hennar. „Í augljósum kynferðislegum tilgangi, á meðan konan hans var í næsta herbergi,“ skrifar Björk. Henni tókst að flýja í herbergi vinar síns. „Þetta gerði það loks að verkum að ég gerði mér grein fyrir alvarleika málsins og fékk mig til að standa á mínu,“ skrifar Björk.

Þá lýsir Björk því hvernig fregnir þess efnis að hún hafi verið erfið á tökustað hermi „frábærlega“ við aðferðir Weinstein.

Að lokum segir Björk af hún hafi aldrei samþykkt að vera beitt kynferðislegri áreitni, heldur hafi áreitnin verið túlkuð eins og að hún sjálf hafi verið að láta erfiðlega. „Ef það að standa á sínu er að vera erfið, þá skal ég vera það,“ skrifar Björk, sem vill aflétta þeirri bölvun sem ríkir um þöggun á kynferðislegri áreitni og kynferðisofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert