Fær bætur eftir vistun í fangaklefa

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að það hefði verið hægt …
Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að það hefði verið hægt að taka skýrslu af konunni mun fyrr en gert var. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða konu 300 þúsund krónur í miskabætur fyrir að hafa verið vistuð í fangaklefa í tæpa sex klukkutíma án þess að nægilegt tilefni væri til. Konan krafðist þess að henni yrðu greiddra 750 þúsund krónur í bætur, en héraðsdómur taldi 300 þúsund krónur hæfilegar bætur.

Málavöxtum er lýst þannig í dómi héraðsdóms að konan hafi verið handtekin á heimili fyrrverandi unnusta síns, eftir óskað hafði eftir aðstoð lögreglunnar vegna mikillar kannabislyktar. Þegar lögregla kom á vettvang lagði mikinn kannabisreyk frá herberginu og ætluð fíkniefni sáust á borði fyrir innan. Þá segir í lögregluskýrslu að báðir einstaklingar hafi greinlega verið undir áhrifum fíkniefna.

Við leit í herberginu fundust 0,4 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni ásamt tækjum og tólum til fíkniefnaneyslu og umbúðum utan af fíkniefnum.

Konan var handtekin klukkan 16:45, ásamt unnusta sínum og þau værð í fangaklefa um hálftíma síðar. Konan segir að henni hafi ekki verið kynntur réttur sinn, en það stangast á við það sem kemur fram í lögregluskýrslu.

Tekin var skýrsla af konunni klukkan 21:33 þar sem hún neitaði að hafa haft vitneskju um fíkniefnin. Var henni sleppt um klukkutíma síðar eftir að unnustinn játaði að hafa átt umrædd fíkniefni og tók fram að konan hefði ekki komið að málinu. Mál gegn henni var fellt niður í kjölfarið.

Krafa konunnar byggir á að hún hafi verið saklaus handtekin og svipt frelsi sínu í um sex klukkustundir. Hún hafi verið allsgáð og aðeins gestkomandi í íbúð unnustans. Telur hún að skilyrði til handtöku hafi ekki verið uppfyllt, enda rökstuddur grunur ekki fyrir hendi og engin hætta á að hún gæti spillt sönnunargögnum.

Sýknukrafa íslenska ríkisins byggir hins vegar á að handtaka hafi verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir spillingu sönnunargagna vegna áframhaldandi rannsóknar málsins. Þá er talið að konan hafi ekki verið allsgáð líkt og hún heldur fram. Óumdeilt sé að konan var í umræddu herbergi ásamt unnusta sínum þar sem fíkniefni fundust. Hvorugt gat gefið skýringar á fíkniefnunum þegar lögregla kom á vettvang.

Niðurstaða dómsins er sú handtakan hafi verið eðlileg og lögmæt. Ekki hafi verið hægt að boða konuna í yfirheyrslu síðar. Dómurinn telur hins vegar að lögreglu hefði verið unnt að taka framburðarskýrslu af konunni fyrr en gert var. Ekkert liggi fyrir í málinu um nauðsyn þess að þurft hafi að taka skýrslur af konunni og unnustanum hvoru á eftir öðru, né að ástand þeirra hafi verið þannig að ekki hafi verið hægt að taka skýrslur fyrr. Dvölin í fangaklefanum hafi valdið konunni miska og því beri að greiða henni miskabætur upp á 300 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert