Fríverslun forsenda farsældar Íslands

AFP

Forsenda þeirrar velmegunar sem Ísland hefur notið til þessa er fríverslun. Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á fundi Félags atvinnurekenda í morgun þar sem fjallað var um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit). Sagði ráðherrann að Ísland væri skólabókardæmi um mikilvægi fríverslunar.

Þetta virkaði ennfremur í báðar áttir. Ísland þyrfti að hafa aðgang að öðrum mörkuðum og hafa eigin markað opinn. Hvað útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu varðaði upplifuðu Íslendingar sig gjarnan sem skilnaðarbarn. Bæði Bretar og sambandið væru bandamenn og vinir Íslendinga og skilaboðin frá Íslandi væru einfaldlega þau að anda með nefinu og reyna að ná ásættanlegum samningi um útgöngu Bretlands.

Guðlaugur Þór lagði áherslu á að það væri engum í hag ef auknar viðskiptahindranir yrðu á milli Bretlands og Evrópusambandsins. Það kæmi sér ekki síst illa fyrir fyrirtæki innan sambandsins. Ekki síst í Þýskalandi. Evrópusambandið seldi þannig miklu meira til Bretlands en Bretar seldu til sambandsins. Hins vegar virtist markmiðið hjá Evrópusambandinu vera að gera Breta að víti til varnaðar fyrir önnur ríki sambandsins.

Vilja gera Breta að víti til varnaðar

Ef rætt væri við ráðherra í ríkjum Evrópusambandsins hefðu þeir áhyggjur af því að Bretland yrði samkeppnishæfara en heimalönd þeirra eftir að Bretar væru komnir út úr sambandinu. Evrópusambandið hefði raunverulegar áhyggjur af því að ef Bretar fengju of góðan samning gæti það hvatt önnur ríki til útgöngu.

Tvær leiðir væru í fríverslunarmálum. Annars vegar að allsherjar samræming á stöðlum og reglum eða gagnkvæm viðurkenning á stöðlum og reglum á milli ríkja sem ættu í viðskiptum. Guðlaugur Þór sagðist ekki sjá hvernig hægt væri að samræma fríverslun á heimsvísu. Sá sem miðstýrði þeirri samræmingu myndi hafa gríðarleg völd.

Ráðherrann sagði ljóst að Íslendingar hefðu ríka hagsmuni þegar kæmi að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þrjár leiðir kæmu til greina til að tryggja hagsmuni Íslands. Í fyrsta lagi fríverslunarsamningur á milli Bretlands og Íslands, í annan stað fríverslunarsamningur á milli EFTA og Bretlands og í þriðja lagi að tenging við samning Breta.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á fundinum í morgun.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á fundinum í morgun. Skjáskot

Guðlaugur Þór sagði Breta hafa verið mjög jákvæðir fyrir því að tryggja gagnkvæma hagsmuni landanna. Full fríverslun á milli Bretlands og Íslands væri að hans mati sannarlega æskileg en hins vegar væri Ísland í þeirri stöðu að taka þyrfti tillit til íslensks landbúnaðar. Þó ekki alls landbúnaðarins en það ætti við um ákveðnar greinar.

Hins vegar væri staðreyndin sú að Ísland þyrfti að gera miklu færri fyrirvara við fríverslun en hin EFTA-ríkin, Noregur, Sviss og Liechtenstein. Í samanburði við Evrópusambandið væru 90% tollskrárnúmera Íslands án tolla samanborið við 26% hjá sambandinu.

Guðlaugur Þór sagði að ennfremur hefði komið í ljós að ef Ísland hefði gengið í Evrópusambandið hefði þurft að koma upp nýju tölvukerfi vegna tollgæslunnar sem kostað hefði 3,8 milljarða króna sem væri það sama og kostaði að reka Landhelgisgæsluna á ári. Ennfremur hefði þurft að ráða hundruð nýrra tollvarða.

Brexit ekki rætt í kosningabaráttunni

Kerfið á Íslandi væri þannig miklu einfaldara en það sem þekktist innan Evrópusambandsins. Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu skapaði mikil tækifæri fyrir Ísland þegar kæmi að fríverslun enda stefndu Bretar að því að verða í forystu í þeim málum í heiminum. Ísland legði áherslu á að vera framarlega í röðinni í þeim efnum.

Guðlaugur Þór sagði að íslensk stjórnvöld hefðu lagt mikla áherslu á að tryggja hagsmuni Íslands í þessum efnum og málið hefði verið á oddinum hjá sér síðan hann hafi tekið við embætti. Það ylli honum hins vegar ákveðnum áhyggjum að utanríkismál hefðu lítið verið í sviðsljósinu í yfirstandandi kosningabaráttu til þessa.

Málið varðaði ríka íslenska hagsmuni og það væri áhyggjuefni ef við tæki ríkisstjórn eftir kosningarnar í lok mánaðarins skipuð flokkum sem hefðu ekkert tjáð sig um þessi mál. Ekki væri hægt að halla sér aftur á bak í þessum efnum. Vinna yrði náið með hagsmunaaðilum og tryggja hagsmuni landsins. En til þess þyrfti pólitíska forystu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert