Gamli Iðnaðarbankinn jarðsunginn

Húsnæðið við Lækjargötu 12 verður brátt rifið.
Húsnæðið við Lækjargötu 12 verður brátt rifið. mbl.is/Árni Torfason

Stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu 12, sem reis á árunum 1959-1963, verður jarðsungið á fimmtudaginn kl. 18. „Okkur langar að heiðra minningu byggingarinnar. Þetta sýnir hvernig við hönnum endalok bygginga. Við kveðjum ákveðnar hugmyndir á sama tíma og nýjar hugmyndir og vonir kvikna,“ segir Anna María Bogadóttir arkitekt og einn af skipuleggjendum jarðsöngsins. 

Húsið verður rifið niður á næstunni. Spurð hvort hópurinn sé andvígur niðurrifi hússins bendir Anna María á að athöfnin snúist í raun ekki það. „Við leggjum ekki mat eða dóm á það. Nú kemur til með að rísa ný bygging sem felur í sér önnur tækifæri og ber með sér hugmyndir okkar tíma sem framtíðin mun kveða upp sinn dóm um,“ segir Anna María. Þess má geta að á lóðinni verður reist hótel.  

Þegar byggingin reis á sínum tíma var hún mikið stærri en aðrar byggingar í kring. Hún táknar framtíð þess tíma og var hluti af heildaráætlun um nýja ásýnd miðborgarinnar sem bar með sér fyrirætlanir um að stækka borgina til muna.   

Athöfnin felur í sér virðingu og væntumþykju gagnvart umhverfinu og stefnumóti framtíðardrauma fortíðar og samtíma. 

Anna María Bogadóttir arkitekt, Berglind María Tómasdóttir tónskáld og Kristín Gunnarsdóttir myndlistarmaður halda utan um athöfnina. 

Sjá nánar um viðburðinn hér á Facebook

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert