Í farbanni vegna gruns um smygl á fólki

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að karlmaður sem grunaður er um smygl á fólki sæti farbanni allt til föstudagsins 10. nóvember næstkomandi.

Maðurinn kom hingað til lands frá Kaupmannahöfn þann 13. september síðastliðinn og við afskipti tollvarða fundust á honum skilríki annars fólks, í tösku, sem hann sagðist svo ekki eiga. Meðal annars var um að ræða skráningarpappíra einstaklings frá Írak og ígildi dvalarleyfis frá Þýskalandi, tvenn óskilgreind kennivottorð frá Írak með mynd, innanlandskennivottorð frá Þýskalandi með tveimur myndum og nöfnum og börnum þeirra og ákvörðunarpappír frá Þýskalandi, dagsettum í apríl á þessu ári, um synjun um hæli, með fjórum nöfnum.

Hald var lagt á pappírana og maðurinn hélt áfram för sinni inn í landið þar sem annar maður, hælisleitandi, tók á móti honum. Skömmu síðar komu réttmætir handhafar skilríkjanna í komusal flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og sóttu um hæli.

Þegar maðurinn reyndi svo að fara úr landi aftur var hann handtekinn, grunaður um smygl á fólki.

Maðurinn viðurkenndi í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa greitt farmiða fyrir fjölskylduna hingað til lands og áfram héðan til Dublin eftir að hafa fengið beiðni þess efnis frá manni í Malmö í Svíþjóð. Þá viðurkenndi hann jafnframtað hafa komið með sömu flugvél og fjölskyldan hingað til lands og eftir afskipti tollgæslu og lögreglu af honum hafi hann tekið farangur fjölskyldunnar og farið með hann heim til vinar síns.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að réttmætir handahafar skilríkjanna hafi bæði borið um að hafa ferðast á röngum nöfnum og með fölsuð skilríki. Þau segja ákærða í málinu hafa aðstoðað þau og að hann hafi tekið við fölsuðu skilríkjunum eftir að þeim hafði verið framvísað við innritun um borð í vél þeirra til Íslands.

Rannsókn á málinu er lokið og var ákæra gefin út á hendur manninum af lögreglustjóranum á Suðurnesjum þann 13. október síðastliðinn. Þar sem hann hefur engin tengsl við landið megi ætla að hann reyni að komast úr landi eða leynast til að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar, verði honum ekki gert að sæta farbanni á  meðan málið er tekið fyrir hjá dómstólum. Krafa um farbann er því staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert