Taskan í vélinni en eigandi ekki

Þota WOW í flugtaki frá Keflavíkurflugvelli.
Þota WOW í flugtaki frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Seinka þurfti flugtaki hjá vél flugfélagsins WOW air um rúmlega klukkustund í gærmorgun. Þegar vélin var komin út á flugbraut kom í ljós að farþegi sem hafði skráð tösku með í flugið var ekki um borð.

Sverrir Falur Björnsson, verkefnastjóri á samskiptasviði WOW, segir það rétt að komið hafi í ljós þegar vél flugfélagsins var að leggja af stað til Parísar í gærmorgun að það hafi vantað einn innritaðan farþega.

Hann segir að reglum samkvæmt hafi þurft að keyra vélinni aftur upp að flutstöð til að fjarlægja farangur farþegans og af þeim sökum hafi brottför frá Keflvík seinkað um eina klukkustund og 15 mínútur.

Samkvæmt Sverri eru allir innritaðir farþegar kallaðir upp ef þeir hafa ekki skilað sér upp í vél fyrir ákveðinn tíma. Hins vegar hafi umræddur farþegi verið skráður eins og hann hafi verið kominn út í vél og flugfélagið sé að rannsaka hvers vegna það var.

Spurður hvort þetta gerist oft segir Sverrir tilvikið í gær það eina sem hann finni í fljótu bragði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert