Uppáhalds er undirspilið

Gunnar Þórðarson, Þorgeir Ástvaldsson, Þorsteinn Eggertsson, Alma Rut Kristjánsdóttir og …
Gunnar Þórðarson, Þorgeir Ástvaldsson, Þorsteinn Eggertsson, Alma Rut Kristjánsdóttir og söngvarinn lengst til hægri er Kristján Gíslason. Þessir listamenn verða á Hótel Grímsborgum allar helgar fram í desember. Ljósmynd/Heimir Óskarsson

„Stemningin var frábær. Fólk kunni lögin, söng með og fór að dansa og dilla sér. Þetta gerist ekki betra,“ segir Gunnar Þórðarson tónlistarmaður. Nú um helgina var á Hótel Grímsborgum, sem er fyrir austan fjall, fyrsta skemmtunin í tónleikaröðinni Uppáhalds, þar sem flutt eru nokkur af lögum Gunnars sem Þorsteinn Eggertsson hefur gert texta við.

Auk þeirra koma fram á tónleikunum og flytja lögin þau Þorgeir Ástvaldsson, Alma Rut Kristjánsdóttir, Kristján Gíslason og Birgir Jóhann Birgisson. Þá flýtur með ýmislegt skemmtilegt sem tengist lögunum, svo sem sögur af tilurð þeirra, flutningi og öðru slíku.

Villibráð og jólahlaðborð

Ólafur Laufdal rekur Hótel Grímsborgir, sem er við Sogið í Grímsnesi. Þar er glæsileg aðstaða; veitingastaður með salarkynnum og 240 gistirými í herbergjum, smáhýsum, svítum og lúxusíbúðum. „Aðsóknin er frábær. Íslendingar koma hér mikið, svo sem fjölskyldur sem vilja gera sér glaðan dag á tímamótum. Hjá mörgum er líka fastur liður að fara eitthvað út fyrir bæinn á haustin og hafa það notalegt eina helgi. Það fólk kemur mikið hingað,“ segir Ólafur.

Á Grímsborgum er villibráðarhlaðborð á föstudögum og laugardögum til og með fyrstu helginni í nóvember. Þá tekur jólahlaðborðið með öllu fíniríinu við. Og undirspil þessa alls er Uppáhald, það er Gunnar og Þorsteinn og fylgihnettir þeirra. Meðal þeirra laga sem flutt eru má nefna Heim í Búðardal, Fjólublátt ljós við barinn, Himinn og jörð, Ljúfa líf, Ástarsæla, Ég elska alla, Harðsnúna Hanna, Er hann birtist, Dans, dans, dans, Eitthvað sætt og fleiri. Eftir tónleikana verður svo diskótek þar sem plötusnúðarnir Gísli Sveinn Loftsson og Vilhjálmur Ástráðsson spila lögin frá árunum um og eftir 1980. Á þeim tíma var skemmtistaðurinn Hollywood, sem var opnaður í mars 1978, vinsælasti skemmtistaður landsins og eru diskólög þessara ára oft kennd við hann.

Ánægt og alveg frábært

Dagskráin Uppáhalds verður allar helgar til og með 16. desember. „Mér fannst stemningin nú um helgina alveg frábær. Fólk var ánægt og til þess var leikurinn líka gerður. Ég geng líka að öllu vísu þegar Gunnar Þórðarson sér um málin, við höfum starfað saman í áratugi, svo sem á Broadway og Hótel Íslandi í gamla daga, þar sem settar voru upp margar eftirminnilegar sýningar. Dagskráin Uppáhalds er í þeim anda nema að þetta er allt einfaldara og smærra í sniðum,“ segir Ólafur Laufdal.

Gunnar Þórðarson og Þorsteinn Eggertsson eru báðir Keflvíkingar og hafa þekkst síðan á unglingsárum. Samstarf þeirra hófst á blómatíma Hljóma en þá var gangurinn sá að Gunnar samdi lögin og bað Þorstein um texta. Alls eru lögin sem þeir hafa samið saman um þrjátíu.

Harmónerar saman

„Stíll okkar beggja hefur alltaf harmónerað vel saman. Ef ég hef verið með lífsglaðar melódíur hef ég oft beðið Steina um texta og þeir hafa aldrei klikkað,“ segir Gunnar. Hann er nú er að ljúka upptökum og vinnslu á geisladiski með fimmtán nýjum lögum frá síðustu misserum. Höfundar texta þar eru Guðmundur Andri Thorsson, Hallgrímur Helgason og Vigdís Grímsdóttir – öll meðal fremstu rithöfunda þjóðarinnar. Og söngvararnir á plötunni eru sömuleiðis landsliðsfólk og má þar nefna Eyþór Inga Gunnlaugsson, Jóhönnu Margréti, Stefaníu Sigurðardóttur, Stefán Hilmarsson og Björgvin Halldórsson – auk margra annarra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert