Áform um átta hæða hús við Skúlagötu

Götumynd Skúlagötu mun breytast með tilkomu byggingar á horni Frakkastígs …
Götumynd Skúlagötu mun breytast með tilkomu byggingar á horni Frakkastígs og Skúlagötu. Tölvumynd/VA Arkitekta

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur kynnt tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir hluta Skúlagötusvæðis. Um er að ræða tæplega eins hektara svæði sem nær yfir óbyggða lóð á horni Skúlagötu og Frakkastígs og óbyggt borgarland milli Skúlagötu og Sæbrautar. Tillagan verður næst tekin fyrir í borgarráði.

Lóðin Frakkastígur 1 er í eigu Reykjavíkurborgar. Þetta er ein af fáum óbyggðum lóðum við Skúlagötuna. Óbyggð lóð er við hliðina á Sjávarútvegshúsinu. Samkvæmt deiliskipulagstillögunni verður heimilt að byggja átta hæða hús á lóðinni ásamt bílastæðakjallara. Á 1. og 2. hæð er gert ráð fyrir verslun og þjónustu en á hæðum 3-8 verða íbúðir, þar með taldar námsmannaíbúðir. „Ný bygging á að binda saman nálæga byggð og stuðla að jafnvægi í byggðamynstri þess,“ segir m.a. í kynningu með tillögunni.

Færeyska sjómannaheimilið stóð áður á lóðinni

Á lóðinni Frakkastígur 1 stóð áður einlyft timburhús sem hýsti Færeyska sjómannaheimilið. Það hús var flutt af lóðinni upp úr 1990.

Beint fyrir ofan lóðina, við Lindargötu, stendur þekkt hús þar sem Tónmenntaskóli Reykjavíkur er nú til húsa. Húsið var reist árið 1902 af Franska spítalafélaginu fyrir franska sjómenn sem veiktust eða slösuðust hér við land. Þetta hús var friðað af menntamálaráðherra árið 2008.

Jafnframt er í deiliskipulagstillögunni gert ráð fyrir því að færa stutta götu milli Skúlagötu og Sæbrautar. Gatan liggur nú á milli lóðanna Skúlagata 11 og 13 en verður færð um það bil 50 metra til vesturs og mun liggja í beinu framhaldi af Frakkastíg.

Þá verður heimilt að gera nýjan göngustíg að Sólfarinu, einu helsta kennileiti Reykjavíkur. Gönguleiðin verður austanmegin við Frakkastíg. Með tilkomu þessa nýja göngustígs verður til bein gönguleið frá Sólfarinu alla leið að Hallgrímskirkju.

Samkvæmt tillögunni verður grenndarstöð komið fyrir milli Skúlagötu og Sæbrautar. Þar verða lágreistir gámar til flokkunar á sorpi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert