Atvinnulífið aðlagist vetrarfríi

Linda Jóhannsdóttir og synir hennar, Ísak Kristófer, til vinstri, og …
Linda Jóhannsdóttir og synir hennar, Ísak Kristófer, til vinstri, og Nóel Viktor sem eru Haukssynir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vetrarfrí í grunnskólum víða á höfuðborgarsvæðinu hefjast í dag og eru til dæmis í Reykavík og Mosfellsbæ til og með mánudegi. Börn og foreldrar hafa því tækifæri til að gera ýmislegt skemmtilegt saman næstu daga. Í söfnum í Reykjavík verða meðal annars sögustundir, smiðjur og örnámskeið, í félagsmiðstöðvum verða ýmsar uppákomur og á völdum tímum er frítt í sund. Svo er líka gráupplagt fyrir fólk að finna sjálft upp á einhverju sniðugu og margir ætla til dæmis um helgina í sumarbústað.

Brjóta upp tilveruna

Haustfrí í grunnskólum voru sett inn í dagatöl fyrir nokkrum árum og reynslan þykir almennt vera góð. „Þetta frí er börnunum nauðsynlegt. Raunar ætti allt samfélagið að vera í fríi þessa daga, öllum er nauðsynlegt að brjóta upp tilveruna reglulega, einfaldlega til þess að njóta lífsins og slaka á,“ segir Linda Jóhannsdóttir sem býr í Hlíðunum í Reykjavík: hönnuður, háskólanemi og móðir tveggja ungra drengja.

„Vissulega heyrir maður stundum óánægjuraddir um að fríið trufli atvinnulífið og ýmsa þjónustu. Ég er því ósammála. Sjálf þekki ég frá Danmörku, þar sem löng hefð er fyrir vikulöngu fríi í skólum að hausti og vori, að starfsemi fyrirtækja er aðlöguð því svo barnafjölskyldur geti átt saman gæðastundir. Þetta þurfa Íslendingar að læra og þróunin er í þessa átt.“

Dagskráin hjá Lindu og sonum hennar næstu daga er sjálfsagt lík því sem gerist hjá þúsundum annarra fjölskyldna þessa dagana. Sjálf er hún að vinna í dag og á morgun við að setja upp listsýningu og þar verða strákarnir með henni. Frá föstudagskvöldi til sunnudags er það svo sæludvöl í bústað í Borgarfirðinum og á mánudaginn stendur svo til að þræða ýmsa áhugaverða viðburði í borginni, söfn, sýningar, fara í gönguferð og enda með sundlaugarferð.

Fríið verði fimm virkir dagar

Sundlaugin í Laugaskarði í Hveragerði.
Sundlaugin í Laugaskarði í Hveragerði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson


„Bæði meðal almennings og í atvinnulífinu þarf skipulag daganna að miðast við haustfríið, sem mætti jafnvel vera fimm virkir dagar milli helga. Allt mun rúlla sinn vanagang fyrir því. Og dagana framundan eigum við að nota til að skapa góðar minningar,“ segir Linda.

Fara í sund fyrir austan fjall

Hvað er hægt að gera í vetrarfríi? Skreppitúr austur fyrir fjall í barnvænar sundlaugar í Hveragerði og Þorlákshöfn var hugmynd sem Morgunblaðið fékk frá lesanda. Haustlitaferð í Heiðmörk, baka skinkuhorn og möffins eða leyfa börnunum að bjóða vinum í náttfatapartí sem byrjar um daginn og endar næsta morgun, sagði mamman. Pabbinn mælti með heimsókn í bogfimisetrið – og skaut í mark!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert