Skotveiðifélagið greiði ríkinu milljón

Skotveiðimenn munda skotvopn sín á gæsaveiðum.
Skotveiðimenn munda skotvopn sín á gæsaveiðum. mbl.is/Ingólfur Guðmundsson

Hæstiréttur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfum Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis. Skotveiðifélagið hafði farið fram á að ríkinu yrði gert að greiða sér skaðabætur vegna málskostnaðar sem félagið hefði sem orðið fyrir er það sótti mál gegn ríkinu vegna starfsleyfis skotvallar á Álfsnesi, sem umhverfisráðuneytið felldi úr gildi árið 2010.

Forsaga málsins er sú að 2004 gerðu Reykja­vík­ur­borg og Skot­veiðifé­lagið með sér samn­ing um af­not af land­spildu á Álfs­nesi til skotæf­inga. Skot­veiðifé­lagið fékk út­gefið starfs­leyfi til að starf­rækja skotæf­inga­svæði á spild­unni sama ár og var með starf­semi. Starfs­leyfið gilti til átta ára og því þurfti fé­lagið að sækja um end­ur­nýj­un á því til Heil­brigðis­nefnd­ar Reykja­vík­ur­borg­ar.

Um­sókn fé­lags­ins um endurnýjun var samþykkt 2009 og fékk fé­lagið þá út­gefið starfs­leyfi til 12 ára.

Íbúa­sam­tök Kjal­ar­ness og eig­end­ur og ábú­end­ur á jörðinni Skriðu á Álfs­nesi kærðu hins vegar ákv­arðanir heil­brigðis­nefnd­ar um end­ur­nýj­un starfs­leyf­anna til um­hverf­is­ráðuneyt­is­ins og var í kærunum vísað til þess að deili­skipu­lag skorti á Álfs­nesi til að heim­ilt væri að nýta um­rætt landsvæði und­ir skot­velli.

Um­hverf­is­ráðuneytið felldi í kjöl­farið ákvörðun Heil­brigðis­nefnd­ar Reykja­vík­ur úr gildi og felldi Hæstirétt­ur síðan úr­sk­urð um­hverf­is­ráðuneyt­is­ins úr gildi 2014. Hæstiréttur úrskurðaði þó að hver aðili yrði látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Þessu vildi skotveiðifélagið hins vegar ekki una og krafðist skaðabóta frá ríkinu vegna málskostnaðarins.

Hæstiréttur taldi hins vegar í dómi sínum nú að Skotveiðifélagið hefði ekki sýnt fram á að starfsmenn ráðuneytisins hefðu á grundvelli sakar valdið sér tjóni af ásetningi eða gáleysi þannig að félagið gæti sótt um bætur til ríkisins vegna kostnaðar af rekstri málsins. Væri skilyrðinu um saknæmi því ekki fullnægt og ríkið þar af leiðandi sýknað af kröfum Skotveiðifélagsins.

Var Skotveiðifélaginu því gert að greiða ríkinu samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert