Vekja athygli á húsnæðisvanda skólans

Myndlistardeild Listaháskólans hefur aðstöðu í hluta byggingarinnar á Laugarnesvegi 91.
Myndlistardeild Listaháskólans hefur aðstöðu í hluta byggingarinnar á Laugarnesvegi 91. mbl.is/Brynjar Gauti

Listaháskólinn stendur fyrir röð viðburða í aðdraganda alþingiskosninganna, en meginmarkmið skólans með þeim er að vekja athygli á aðkallandi húsnæðisvanda Listaháskólans.

Nú í kvöld var haldið gjörningakvöld á vegum nemenda í Smiðjunni á Sölvhólsgötu undir heitinu Eitt þak, takk og var það vel sótt að sögn Ilmar Daggar Gísladóttur, kynningarstjóra Listaháskólans.

„Síðan ætla hópar kennara og nemenda að heimsækja kosningaskrifstofur framboðslistanna í Reykjavík nú um helgina,“ segir Ilmur í samtali við mbl.is.

Húsnæðismál skólans hafi verið óásættanleg frá stofnun og því vilji nemendur og kennarar vekja athygli á, enda hafi þeir fengið nóg. „Markmiðið var að sameina listaskóla á framhaldskólastigi í háskóla undir einu þaki. Það var markmiðið 1999 og okkur finnst kominn tími til þess að skólinn sé sameinaður,“ segir Ilmur

„Við teljum að krafturinn verði ennþá meiri með því að komast undir eitt þak.“

Húsnæðisvandinn hafi ekki verið leystur og því sé hluti starfseminnar enn í því bráðbirgðahúsnæði sem hún var við stofnunina.

Annað húsnæði sé ýmist óhentugt eða hafi ekki verið sniðið fyllilega að háskólastarfi á fræðasviði lista. Verst sé þó ástandið í Sölvhólsgötu og hafi Efla og Heilbrigðiseftirlitið metið hluta hússins ónothæfan.

„Ef uppbyggingin fær ekki hratt brautargengi er framtíð Listaháskóla Íslands í meiri óvissu nú en fyrir 20 árum, því samningar um  leiguhúsnæði eru að renna út,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert