Hrundi úr hillum og brotnaði

Skjálftahrinan hefur fundist vel á Selfossi.
Skjálftahrinan hefur fundist vel á Selfossi. mbl.is/Árni Sæberg

Jarðfræðingurinn Sigurjón Valgeir Hafsteinsson, sem er yfir neyðarvörnum hjá Rauða krossinum á Suðurlandi, varð vel var við jarðskjálftana nú í kvöld.

„Við sátum og vorum að horfa á sjónvarpið,“ segir Sigurjón sem er búsettur á Selfossi. „Við urðum vör við skjálftann sem varð 20:40 sem mældist 2,9. Síðan komu þessir tveir skjálftar rétt fyrir tíu með nokkurra sekúndna millibili. Annar var 2,4 og sá seinni var 3,6. Þá drundi í öllu og hristist allt og það hrundi hér úr hillum og brotnaði aðeins.“

Spurður hvort skjálftinn hafi vakið ótta hjá mönnum, segir hann: „Fólki bregður auðvitað við og aumingja hundurinn er skíthræddur.“

Sigurjón Valgeir Hafsteinsson er búinn að fara um húsið og …
Sigurjón Valgeir Hafsteinsson er búinn að fara um húsið og taka niður af veggjum og úr hillum fari svo að stærri skjálfta verði vart. Ljósmynd/Facebook

Sigurjón kveðst annars vera búinn að vera með tölvuna í fanginu í allt kvöld til að fylgjast með skjálftahrinunni, enda hafi hann gaman af að finna fyrir jarðskjálftum og muni því fylgjast vel með áfram. Hann segir það heldur ekki koma sér á óvart þó að það héldi áfram að hristast í kvöld og nótt.

„Við erum búin að fara um húsið og taka niður af veggjum og úr hillum til að reyna að tryggja það sem getur farið á stað ef það kemur stærri skjálfti.“

Skjálfta­hrin­an er ekki á gossvæði, að sögn nátt­úru­vár­sér­fræðings hjá Veður­stofu Íslands, heldur er hún á Suður­lands­skjálfta­belt­inu. Sama belti og hrökk þegar stóru skjálft­arn­ir 2008 komu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert