Isavia kyrrsetti flugvél Air Berlin

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Isavia

Isavia kyrrsetti skömmu fyrir miðnætti flugvél Air Berlin á Keflavíkurflugvelli vegna notendagjalda sem eru í vanskilum og eru tilkomin vegna greiðslustöðvunar Air Berlin.

Í tilkynningu frá Isavia kemur fram að fyrirtækið hafi heimildir í loftferðalögum til þess að kyrrsetja loftför svo tryggja megi greiðslu vangoldinna gjalda. Því úrræði hafi verið beitt einu sinni áður á Keflavíkurflugvelli.

Um er að ræða vanskil á gjöldum sem komu til áður en Air Berlin fór í greiðslustöðvun. 

„Ljóst er að framkvæmdin mun hafa áhrif á ferðir þeirra farþega sem áttu bókað flug með Air Berlin og harmar Isavia að til þessa hafi þurft að koma. Þessi aðgerð er hins vegar eina úrræðið sem félagið hefur til þess að tryggja greiðslu skuldar Air Berlin. Starfsfólk Isavia er til taks á Keflavíkurflugvelli í nótt ef kemur til þess að aðstoða þurfi þá farþega sem verða fyrir áhrifum af þessari aðgerð,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert