Ekki hægt að útiloka enn stærri skjálfta

Skjálftahrina hefur farið um Suðurland síðasta sólarhringinn.
Skjálftahrina hefur farið um Suðurland síðasta sólarhringinn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ekki er útilokað að enn stærri skjálftar verði á Suðurlandi á næstu dögum, hugsanlega af svipaðri stærð og Suðurlandsskjálftarnir 2008, sem mældust um 6 stig á Richter-kvarða. Þetta segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Veðurstofunni. Hún segir erfitt að spá fyrir um framhaldið. „Þetta gæti dáið út núna eða hrundið af stað spennubreytingu á öðrum stað, sem við vitum ekki af,“ segir Sigurdís.

Að sögn Sigurdísar má búast við að minnst 10 skjálftar af stærð 3 fylgi í kjölfarið á skjálfta eins og þeim sem varð í gærkvöldi. Enn sem komið er hafa aðeins fimm slíkir komið fram en heildarfjöldi skjálfta er þó um 400. Því má vænta að lágmarki fimm skjálfta að stærð 3 til viðbótar.

Stóri skjálftinn í gær varð um sex kílómetra austnorðaustur af Selfossi en skjálftasvæðið hefur síðan þokast nær bænum og hafa upptök eftirskjálfta mælst í 4 kílómetra fjarlægð frá bænum.

Sigurdís beinir þeim tilmælum til íbúa á skjálftasvæðinu að hafa ekki lausa hluti hangandi yfir rúmum og hvetur Sunnlendinga til að kynna sér heimasíðu Almannavarna en þar má nálgast gagnlegar ábendingar um viðbúnað vegna jarðskjálfta og hvernig best er að bera sig að eftir skjálfta. „Krjúpa, skýla, halda er gamalt lögmál, sem á enn við.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert