Snjallsímar sjaldan orsakavaldar í reiðhjólaslysum

Notkun snjallsíma er sjaldan orsakavaldur í reiðhjólaslysum í Hollandi. Aftur …
Notkun snjallsíma er sjaldan orsakavaldur í reiðhjólaslysum í Hollandi. Aftur á móti er spjall við næsta mann eða áfengisneysla mun líklegri orsakavaldur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkvæmt rannsókn sem Neytenda- og öryggisstofnun Hollands hefur unnið að varðandi reiðhjólaslys kemur fram að notkun og áhrif snjallsíma eru hverfandi sem orsakavaldur slíkra slysa. Áfengi og samræður við aðra eru hins vegar mun líklegri til að hafa með slík slys að gera. Þetta kom fram í erindi Susann Nijman, yfirmanni hjá stofnuninni, á slysavarnarþingi sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg heldur í gær og í dag á Grand hóteli.

Nijman fór í erindi sínu yfir nýlega rannsókn sem hefur ekki enn verið gefin út. Markmiðið var að skoða áhrif snjallsíma og annarra mögulegra áhrifavalda reiðhjólaslysa. Í ljósi góðrar slysaskráningar stofnunarinnar í Hollandi var hægt, að fengnu leyfi siðanefndar, að senda út könnun á 8 þúsund manns sem höfðu slasast í reiðhjólaslysum. Svarhlutfallið var um 40% að hennar sögn sem telst nokkuð gott í könnunum sem þessum.

Niðurstaðan var að aðeins 1,3% sögðu að þeir hefðu verið að nota snjallsíma þegar slysið varð (1,6% af þeim sem voru yngri en 25 ára). Þá var notkun annarra vegfarenda á snjallsímum ástæða slysa í undir 1% tilfella. Sagði Nijman því að svo virtist vera sem snjallsímar væru alls ekki stór áhrifavaldur reiðhjólaslysa.

4% aðspurðra sögðust hafa hlustað á tónlist þegar þeir lentu í slysi (7% þeirra sem eru yngri en 25 ára), 4% sögðu ástæðuna vera að þeir hefðu verið að niðursokknir í hugsanir (3% þeirra sem eru yngri en 25 ára).

12% sögðu að samræður við annað fólk hafi verið ástæða þess að þau lentu í slysi (24% þeirra sem eru yngri en 25 ára)  og 8% sögðust hafa drukkið áfengi áður en þau lentu í slysi (29% þeirra sem eru yngri en 25 ára).

Sagði Nijman að út frá þessum niðurstöðum væri ljóst að það þyrfti að gera ýmislegt meira en að ýta undir að snjallsímar væru ekki notaðir ef draga ætti úr reiðhjólaslysum í Hollandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert