Geta ekki lengur bókað borð og ekki mætt

„Ástæðan fyrir því að við tókum þetta upp var sú …
„Ástæðan fyrir því að við tókum þetta upp var sú að fólk var mikið í því að bóka borð og ekki koma,“ segir Grétar Matthíasson, rekstrarstjóri Grillmarkaðarins. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Fjölmargir veitingastaðir á Íslandi hafa tekið upp bókunarkerfi fyrir borðapantanir að erlendri fyrirmynd. Þegar gestir panta sér borð fá þeir send skilaboð sem innihalda tiltekinn hlekk og þar þurfa þeir að skrá greiðslukortanúmerið sitt. Ef gestirnir mæta ekki á veitingastaðinn án þess að hafa afbókað borðið innan sólarhrings eru þeir rukkaðir um tiltekna upphæð á mann. 

„Ástæðan fyrir því að við tókum þetta upp var sú að fólk var mikið í því að bóka borð og ekki koma,“ segir Grétar Matthíasson, rekstrarstjóri Grillmarkaðarins. Dæmi voru um að allt að 60 manns hafi bókað borð þar en komu ekki. Að sögn Grétars taka langflestir vel í þetta fyrirkomulag og sýna þessu skilning. 

Fáir sem bóka og mæta ekki í dag

Danska bókunarkerfið Dinesuperb var tekið í notkun í ársbyrjun hjá Grillmarkaðnum og skömmu seinna á Fiskmarkaðnum. Hins vegar var fyrsti veitingastaðurinn til að nota Dinersuperb hér á landi veitingastaðurinn Dill sem er jafnframt fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi með Michel­in-stjörnu. Elísa Jóhannsdóttir, veitingastjóri Dill, tekur í sama streng og Grétar og segir ástæðuna fyrir því að ákveðið var að taka kerfið í notkun hafa verið þá að koma í veg fyrir að fólk pantaði borð og mætti ekki. Hún segir jafnframt reynsluna af bókunarkerfinu góða.     

Frá því kerfið var tekið upp hefur það komið örsjaldan fyrir að gestir sem mættu ekki og afbókuðu heldur ekki hafi verið rukkaðir. Sá fjöldi er innan við tugur, að sögn Grétars. „Við erum ekki ströng á þessu heldur snýst þetta um að vita hverjir eru raunverulega að koma,“ segir Grétar og bætir við að ef fólk afbókar t.d. tveggja manna borð á innan við klukkutíma er fólk ekki rukkað. Ástæðan fyrir því er sú að oftast eru langir biðlistar og því er hægt að bjóða öðrum borðið. 

Bókunarkerfið „ákveðinn gæðastimpill“

„Þetta er líka ákveðinn gæðastimpill,“ segir Grétar um bókunarkerfið og bendir á að það bjóði eingöngu upp á bókanir á fínni veitingastöðum.

Veitingastaðirnir sjálfir fá aldrei upplýsingar um kreditkortanúmerið heldur fær banki í Danmörku þær upplýsingar og sendir Valitor á Íslandi þær. Grillmarkaðurinn hefur tekið virkan þátt í að aðstoða við að þróa bókunarkerfið, að sögn Grétars. Í Danmörku geta hótel notað kerfið og bókað borð beint fyrir viðskiptavini sína og hótel hér á landi eru að skoða þennan möguleika.

Grétar segist hafa fengið fjölmargar fyrirspurnir um bókunarkerfið, meðal annars frá hárgreiðslu- og snyrtistofum. Snyrtistofur hafa tekið upp sambærilegt kerfi.      

Risarækjur. Mynd úr safni.
Risarækjur. Mynd úr safni. Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert